sunnudagur, október 26, 2003

Þjóðhátíð

Jú, þið eruð að lesa rétt: það er þjóðhátíðardagur Austurríkismanna í dag. Ég byrjaði daginn á því að óska ástinni minni til hamingju með daginn og eins blá og ég nú er gat ég ekki annað en spurt með barnslegri tilhlökkun: hvenær verða flugeldarnir?! "Flugeldar?! Hvað meinarðu?" var svarað hryssingslega. Það er sem sagt enginn quatorze juillet hérna eins og ég í einfeldni minni vonaði. Ókei; næst var spurt: "En hvað með hátíðarhöldin? Lúðrasveitina, þú veist (hér tók ég byrjun Öxar við ánna í trompetútgáfunni (með vörunum, að sjálfsögðu))?" En nei. Allt kom fyrir ekki. Engin lúðrasveit. Hátíðarhöld? Kannski.

Þar á eftir var farið inn á síðu hersins á netinu og þar eru tilkynningar um uppátæki niðri í bæ í dag. "Hvað, herinn?" varð mér á að æpa. (Hið margumtalaða íslandúrnatóherinnburt ómaði í huga mér) "Já, herinn", var svarið, "er það ekki það sem þjóðhátíðardagurinn snýst um? Eitthvað militær-shit?" Ég gapti.

Og ég nuðaði í honum og þóttist ætla að fara ein og ég veit ekki hvað, þar til maðurinn lofaði að taka mig, hátíðarsjúka manneskjuna niðrí bæ að sjá uppistand hersins við Burg. Og svo var þrammað af stað. Annað eins uppátæki hef ég aldrei verið vitni að. Við Burg var svo mikið að fólki að maður varð að synda til að komast eitthvað áfram. Og seisei nei, það voru engir helvítis þjóðbúningar, engin póetísk fjallkona að stappa stálinu í fólkið, engin máluð barnaandlit, enginn rjómaís með dýfu, engir smáfánar viftandi í vitum manns.
Það var bara herinn. Allsstaðar.

Geðveik, nýhönnuð/ smíðuð herþota (ég huxaði með mér: ætla þeir virkilega að drepa einhvern með svo fallegu vopni? og þar á eftir: jeminn, þetta er virkilega eins og tekið út úr japanskri science-fiction teiknimynd), þyrlur, trukkar, byssur og vopnaðir menn svo langt sem augað eygði. Þetta var eins og draumur af sjómannadegi, þetta voru bara engir sjómenn heldur hermenn, "licenced to kill". Eftir hringinn datt mér í hug að það yrði örugglega gert sprengjutilræði á svæðið, ég varð allt í einu mjög móðursjúk og sá sjálfsmorðssprengju í hverri einustu feitlagnri manneskju sem mætti okkur í luralegri úlpu. Og þar með var þjóðhátíðinni lokið fyrir mér.

Í dagblaðinu í dag "Der Standard" stendur að Austurríkismenn hafi orðið meiri þjóðerniskennd. Þeir lýsi ekki lengur landi sínu sem hálfgerðum undirhatti Þýskalands eins og raunin var eftir stríðið, heldur sjái að það sé munur á þeim og þjóðverjum og unga fólkið vilji jafnvel leggja áherslu á það. Hvers vegna er þá þjóðhátíðin sniðgengin af öllum nema hernum? Ég skil ekki af hverju börnin þeirra hlaupa ekki um með fána og syngja þjóðernissöngva. Þetta er jú bara einu sinni á ári. Og þýðir í rauninni ekkert nema: ég og þú heyrum til saman og verðum að passa uppá hvern annan. Það er einmitt þetta sem "þjóðerni" þýðir. Ekki að fara niðrí bæ og skoða þyrlur og horfa á karla í felubúningum skjóta í sekki.

Í dag var í fyrsta skipti sem ég hljóp hér í Vín. Ég hljóp niður í Schönbrunn, upp á hæðina (labbaði reyndar þann spotta, enda verður maður að hafa ansi mikið þol til að hlaupa upp aðra eins hæð), framhjá Gloríettunni, niður hæðina aftur, út úr garðinum, yfir ánna, inn í annan garð og þar í gegn heim. Óskið mér til hamingju.

Og þótt það sé þjóðhátíð þá slökkva þeir samt á Gloríettunni eftir klukkan sex til að spara rafmagnið! Þvílík þjóð!

Engin ummæli: