sunnudagur, apríl 17, 2005

Eins og það útleggst á austturrísku:
JØSSES NAH!

- Tíminn flýgur!

Það er svo sem ekki í frásögur færandi að ég hef haft mikið um eyrun. Aðallega þó Tóbías. Hann er orðinn svo duglegur að hreyfa sig, hann kemst út um alla íbúð á augnabliki og líkist mest ólympíumeistara í skautahlaupi, ýtir sér áfram á höndunum á víxl. Í dag láum ég og B. í sófanum og hann varð svo æstur (vildi komast uppí), að hann reisti sig upp við sófann og stóð þar eins og ég ímynda mér að Bjartur í Sumarhúsum hafi staðið á bæjarhólnum. En allavega: maður hefur sem sagt nóg að gera við að hlaupa á eftir þessu tryllitæki.

Við B. tókum okkur saman og pöntuðum okkur fjöldskylduvagn fyrir sumarið. Ég reiknaði út að reiðhestur sá kostar aðeins einn tuttugasta af verði bíls sem við sáum á bílasölu í dag. Hann var þó mikið notaður og þónokkuð hræ. Ég hlakka alveg svakalega til að geta keyrt með Tóbías í vagninum í sumar.

Hér er að koma vor: laufblöðin alveg að koma á linditréð og stórborgarkórinn Staka farinn að æfa tónleysuna (tíhí) eftir hann Stefán í tilefni vornóttanna. Það er hins vegar lygi að beykið springi fyrst út, slíkt er aðeins hægt í ímyndun Dana, því eftir því sem ég bezt veit springur yllirinn fyrst út í garðinum hjá okkur. Og hana nú!

Annað er ekki að frétta nema að það er komin ísbúð á Vesterbros Torv og geðveikur lakkrísís (emmess kemst ekki hænufet nálægt þessu) - og hver er með tærnar þar sem Parad Ís er með hælana?

Að lokum vil ég minna á stórljóð frá níunda áratugnum þegar árið 2005 var aðeins fjarlægur tæknidraumur:

Um ba
na
na
na
tvo & tvo
saman er vafið rauðu límbandi að
vega upp á móti gula litnum


Gyrðir E rock on!