sunnudagur, nóvember 06, 2005

Section-in-process

Ef ykkur langar til að fylgjast með lokaverkefninu, klikkið hér. Nýjar myndir af Tobi hér.

sunnudagur, september 25, 2005

Hvur er pervert?

Jæja. Ég var klukkuð af tónskáldinu.
Ætli ég verði þá ekki að blogga í anda hans?

1. Mest kynæsandi er víðlesinn karlmaður að halda fyrirlestur. Turn off eru karlmenn sem eru vondir fyrirlesarar (má sem dæmi nefna arkítektinn Jean Nouvel, verri fyrirlesara hef ég aldrei hlustað á).

2. Eins og tónskáldsins, er uppáhalds drykkur minn kaffi. En bara ef það er gott kaffi. Og helst klukkan sjö á morgnanna.

3. Það versta við að vera góð í einhverju er að ég verð smám saman hrokafyllri. Og það versta við að aðrir séu lélegri en ég í einhverju er að þeir fá minnimáttarkennd.

4. Kardemommubærinn er sá allsvæsnasti heilaþvottur fyrir yngri kynslóðina. Og þegar maður fer að hugsa út í það, er hann orðinn svo gamaldags, að hægt væri að selja hann til Ameríku.

5. Ítölsk vinkona mín, búsett á Spánni tilkynnti mér það á tsjattinu að það væri búið að banna mótmælagöngur í Danmörku og að það væri allt morandi hér í nýnazistum. Þetta hafði hún lesið í grein í spænsku dagblaði. Þetta þýðir líklega að óvinsælasta atvinnugreinin nú til dags er ta-taaam: TÚLKUR!

Good morning, good afternoon aaaaand goodnight!

miðvikudagur, júní 29, 2005

Øppdeit

- Margar nýjar myndir á síðunni hans Tóbí
- Ef einhvern vantar dvergpáfagauka, værsgo og spis
- Erum á leið til Íslands 1. júlí í þrjár vikur, þar á eftir til Hundested á ströndina í viku
- Er að vinna að frústrerandi samkeppni með einum arkítekt, tveimur félagsfræðingum og einum landafræð- og mannfræðingi
- Á að skila prógrammi fyrir lokaverkefnið í miðjum ágúst
- Held ég sé búin að fá prófessorinn til að taka mig að sér
- Og Tobias byrjar í vuggestue 1. ágúst

That´s all folks.
Go sommer!

þriðjudagur, maí 03, 2005

Fyrsta þrumuveður sumarsins og annað smotterí

Ólíkt Sigrúnu Gísla miða ég sumarkomuna ekki við grill, heldur þrumuveður. Í gær var einmitt fyrsta þrumuveður sumars, stundvíslega klukkan kortér yfir eitt. Ég var hjólandi á leið í skólann, átti að mæta þar hálf tvö, og lenti þess vegna svona skemmtilega í duttlungum veðurguðanna. Það svoleiðis stóð demban niður, að ég hefði alveg eins getað farið í sturtu. Það er ekki í frásögur færandi að ég varð blaut inn að beini og þurfti að vera berfætt á fundinum.

Til að bæta við grámyglu femínista má ég til með að deila með ykkur sögu úr kóngsins (drottningarinnar) Kaupinhafn. Nú er svo mikið rætt um komandi barn krónprinsins og sveitastúlkunnar frá hinum enda jarðarinnar, því ef svo vill til að stúlkubarn fæðist, þá er ekki vízt að hún sé komandi drottning fyrr en öll börn eru fædd hjónakornunum. Í lögunum stendur nefnilega að drengsbarn hafi fyrstarétt til krúnunnar. Flestum hér í landi (á mínum aldri) þykir þetta heldur gamaldags. Hins vegar eru ráðandi þingmenn ekki sammála því þeir nenna ekki að standa í því að breyta lögunum eða yfirleitt tala um málið fyrr en barnið er fætt (Anders Fogh sagði að "þetta væri svo mikið mál" - je ræt). Allavega var verið að tala um þetta í útvarpinu um daginn og þá kom einhver af eldri þingmönnum og sagði að honum finndist svona lagabreytingu ekki koma til greina því að "það væri svo erfitt að vera konungur, að honum myndi ekki detta það í hug að leggja það á herðar stúlku"!!! Talandi um gamaldags hugsunarhátt. Ég hefði getað skilið hann ef þetta væri sjötti áratugurinn, en þetta finnst mér of mikið á því herrans ári tvöþúsundogfimm (sakniði ekki tékkheftanna? -sú var tíðin!).

Við B. keyptum okkur miða til Íslands í gærkvöldi. Ég segi ekki annað en: það er dýrt að ferðast á miðjum degi (allt fyrir Tobba litla). Njótið þess að vera barnlaus (það er að segja ef þið eruð barnlaus).

Og að lokum, góðar fréttir gott fólk: Tobias er farinn að sofa aftur á nóttunni. Jibbí!

sunnudagur, apríl 17, 2005

Eins og það útleggst á austturrísku:
JØSSES NAH!

- Tíminn flýgur!

Það er svo sem ekki í frásögur færandi að ég hef haft mikið um eyrun. Aðallega þó Tóbías. Hann er orðinn svo duglegur að hreyfa sig, hann kemst út um alla íbúð á augnabliki og líkist mest ólympíumeistara í skautahlaupi, ýtir sér áfram á höndunum á víxl. Í dag láum ég og B. í sófanum og hann varð svo æstur (vildi komast uppí), að hann reisti sig upp við sófann og stóð þar eins og ég ímynda mér að Bjartur í Sumarhúsum hafi staðið á bæjarhólnum. En allavega: maður hefur sem sagt nóg að gera við að hlaupa á eftir þessu tryllitæki.

Við B. tókum okkur saman og pöntuðum okkur fjöldskylduvagn fyrir sumarið. Ég reiknaði út að reiðhestur sá kostar aðeins einn tuttugasta af verði bíls sem við sáum á bílasölu í dag. Hann var þó mikið notaður og þónokkuð hræ. Ég hlakka alveg svakalega til að geta keyrt með Tóbías í vagninum í sumar.

Hér er að koma vor: laufblöðin alveg að koma á linditréð og stórborgarkórinn Staka farinn að æfa tónleysuna (tíhí) eftir hann Stefán í tilefni vornóttanna. Það er hins vegar lygi að beykið springi fyrst út, slíkt er aðeins hægt í ímyndun Dana, því eftir því sem ég bezt veit springur yllirinn fyrst út í garðinum hjá okkur. Og hana nú!

Annað er ekki að frétta nema að það er komin ísbúð á Vesterbros Torv og geðveikur lakkrísís (emmess kemst ekki hænufet nálægt þessu) - og hver er með tærnar þar sem Parad Ís er með hælana?

Að lokum vil ég minna á stórljóð frá níunda áratugnum þegar árið 2005 var aðeins fjarlægur tæknidraumur:

Um ba
na
na
na
tvo & tvo
saman er vafið rauðu límbandi að
vega upp á móti gula litnum


Gyrðir E rock on!

laugardagur, mars 12, 2005

Árós

Jebb, þá er maður loksins farinn í frí og kominn heim úr fríinu. Leiðin lá lárétt vestur til Jótlands, þar sem ástkær B hélt námskeið í tölvunördi á Journalisthöjskolen. Nánara tiltekið í Árósum. Þetta þýddi náttúrlega fyrir mig, heimavinnandi húsmóðurina, að ég gat látið mig og tveggja-tanna-tryllitækið fljóta með farangrinum þangað vestur. Það er ekki að spyrja að því að farangurinn varð "aðeins" meiri við uppátækið, en hva!

Ferðin var vægast sagt algjör snilld! Ég ráfaði þarna um með barnavagninn og eyddi ótæpilega af barnseignaorlofspeningum - mest þó í efni. Í svona litlum bæ er hægt að koma fyrir ótrúlega mörgum efnabúðum, svo ekki sé talað um saumavélabúðirnar!

Ég fór á Aros, sem er splúnkunýja listasafnið þeirra. Byggingin var ok innaní, þótt hún sé svona hallærisleg að utan og algjört djók svona skipulagslega séð (og eitthvað Guggenheim-imitat formlega séð). En í húsinu var meiriháttar sýning eftir Bill Viola, en flottasta verkið var eiginlega "Five Angels for the Millenium" sem er í eigu safnsins - mæli eindregið með túr þangað ef þið eruð á leið til Árósa á annað borð.

Ég hitti svo ástkæra vini mína, píanistann og tónskáldann, þó í sitthvoru lagi í þetta skiptið ;). Það var upplifun eins og venjulega að fá að vera með svona góðu fólki og ótrúlegt að þegar maður hittist er eins og það sé ekki liðin nema vika síðan síðast. Bare dejligt!

Á leiðinni heim vorum við svo óheppin að hafa sessunaut sem fyrir utan að líta illa út hafði ekki farið í bað síðustu þrjá mánuði. Stúlkan sú var svo hrifin af Tobba greyinu að hún lét hann ekki vera alla ferðina. Ég hafði ekki hjarta í mér til að segja neitt við hana, hún var svo barnaleg eitthvað að ég vorkenndi henni eiginlega. En það kostaði eitt stykki svefnlausa nótt hjá mér því Tobí kallinn vaknaði á klukkutíma fresti með martraðir alla nóttina.

En allavega... Góð vika liðin, kortið straujað og mjúkt og við B afslappaðri en nokkru sinni. En hvað lífið getur verið ljúft!

föstudagur, janúar 21, 2005

De tous les jours au quotidien

Argh, hvenær kemur eiginlega hversdagsleikinn aftur? Allt er nýtt í þessu nýja lífi manns, enginn dagur eins. Maður hefði nú haldið að það væri lúxuss að lifa svona thrilling lífi hérna í denn. En nú sakna ég bara hversdagsleikans. Sakna þess að leiðast og hafa Ekkert að gera. Kíkja í bók, surfa allan daginn... Sakna þess líka að nenna ekki neinu og hafa leyfi til þess. Að vakna einn daginn og vera löt og láta það bara eftir sér.

Good-bye old selfish me. Hello supermom!

Það er nóg að gera hjá mér. Þið hafið kannski tekið eftir því að sífellt lengra er á milli blogga. Það er einmitt vegna þess að ég er svo bissí. Ekki bara við að vera póstmóderníska húsmóðirin (því ég er hætt að baka) heldur við að vera skipulagsfræðikennari, fatadesigner og aktíf í mæðragrúppunni. Er þ.a. auki búin að bjóðast til að taka að mér einn krakka í viðbót einn eftirmiðdag í viku eða svo. En það verður ekkert úr því ef ég þekki móður krakkans rétt (hún nennir n.l. ekki að byrja í skólanum).

Í fréttum er allra helst að það heyrist ekkert frá kirkjumálaráðuneytinu, þótt við höfum sent umsókn um Flókanafnið fyrir þremur mánuðum síðan. Það gerist bara ekki neitt. Reyndar eru kosningar í næsta mánuði svo það er vonandi allt á uppleið, þ.e.a.s. með nýrri stjórn. Ég er að vonast til þess að allt verði útlendingavænna ef það tekst að ryðja Píu Kærsgaard út úr ríkisstjórninni. Hins vegar er ekki hægt að stóla á Danina að kjósa rétt, þannig að maður liggur á bæn á hverju kvöldi í von um að storka örlögunum.

Tobias stækkar og dafnar. Hann er orðinn svo mannalegur og hræðilega mikil læti í honum. Hann liggur og talar við sjálfan sig (og leikföngin, reyndar) endalaust og er orðinn svona duglegur að hreyfa sig. Ég held ykkur að segja að ein mesta martröð Bernhards sé að verða að raunveruleika - drengurinn verður fótboltamaður!