laugardagur, nóvember 29, 2003

Laugardagur til lukku

Engin þoka í dag. Héðan sem ég sit við tölvuna sé ég Gloríettuna svo skýrt að ég get talið túristana sem ganga þar um: u.þ.b. þrjátíu manns.

Bernhard sefur inni í rúmi: maðurinn sem hefur varla farið í vinnuna alla vikuna vegna verkefnaleysis. Hann sefur værum blundi og ég er búin að margbrjóta loforðið um að vekja hann eftir hálftíma. Ég held að það sé of seint núna.

Flo /meðbúandinn er kominn með hjásvæfu. Hann mætir hér þriðja hvern dag og fer í sturtu og skiptir um föt og líður um eins og ballerína. Eða réttara sagt svífur um. Glottandi og horfir dreyminn út í loftið. Je minn, það þarf ekki mikið til að gleðja karlmanninn.
Svona uppá slorið get ég sagt ykkur að stúlkan sem hann sefur hjá er sveitastelpa héðan að norðan, talar með ljótum hreim, hálfljóshærð og með frunsu. Lyktar mjög illa (svitalykt plús kæfandi fcuk-ilmur (þessi með appelsínulyktinni)), við höfum þurft að lofta íbúðina algjörlega út síðustu skipti sem hún var hér.
Það góða við þetta er: maðurinn er glaður og við höfum íbúðina fyrir okkur. Júbbí!

Þess utan hef ég fengið martraðir síðustu nætur út af Blumengasse verkefninu. Í nótt stóð ég í tröppunum (ótrúlegt hversu vel maður getur ímyndað sér óbyggt hús) og þær voru að hrynja. Auk þess hafði höfuðpaurinn gert hótanir sínar um græna litinn í stigaganginum að veruleika. Hryllilegt. Seinna í draumnum var ég komin upp í þakíbúðina og það var einhvern veginn ekki alveg að gera sig að glerið gengur frá lofti og niður til u.þ.b. 70 cm hás veggs. Hvernig eigum við að setja hurðina út á svalir? Þetta er svakalega flókið. Svo ekki sé minnst á vandræðin sem við erum í útaf gegnumgangandi glervegg "í gegnum" svífandi þakverönd... Jæja, ég ætla ekki að flækja líf mitt með vangaveltum um konstrúktív vandamál lengur. Svefninn sér um það.

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Slörið og hinn vestræni heimur

Mig hefur lengi langað til að tjá mig um þessa slörumræðu Dana. Las grein í Weekendavisen (síðan um helgina) um einmitt þessa umræðu: á að banna múslímskum konum að ganga með slör á opinberum stöðum?

Hér fékk ég loks að vita hvar í kóraninum það stendur að konur eigi að hylja sig. Þetta er þegar spámaðurinn sér að dóttir sín er orðin fullþroska ung kona. Þegar þetta rennur upp fyrir honum segir hann við dóttur sína: "þegar stúlkur eru komnar á túr eiga þær ekki að sýna annað af líkama sínum en þetta og þetta" og bendir á andlit og hendur. Ég veit ekki af hverju þetta fékk mig til að hugsa, en hér finnst mér í rauninni skýna í ástúð föðurs fyrir dóttur; hann getur ekki hugsað sér að karlmenn girnist dóttur hans (sem ábyggilega er eftir hefðinni lofuð öðrum). Í rauninni hefur hulan í þessu tilfelli ekki mikið með hina giftu konu að gera, heldur þá ungu konu sem hann er hræddur um að missa út í lífið og frá þeim samningi sem hann hefur gert um að gifta hana.

Eftir því sem ég best get skilið af "innamoramento e amore" (Francesco Alberoni), er þessi hulning í raun mjög skiljanleg í samfélagi sem afneitar því að verða "ásfanginn" sem í raun er vestrænt fyrirbæri. Í múslímsku samfélagi er það nauðsynlegt að styrkja hjónabandið sem stofnun, það er ekki leyfilegt að verða ástfanginn af öðrum en þeim maka sem þér er ætlaður, og þar með verður hulning konunnar í rauninni einfaldasta lausnin. Hún er heima og sér um börnin á meðan maðurinn er úti að vinna: lífið væri þeim jú óbærilegt ef þeir þyrftu að ganga um huldir frá toppi til táar allan daginn bara vegna þess að stelpurnar mættu ekki sjá þá. Önnur skýring er að Múhammeð vissi vel að karlmenn eiga auðveldara með að verða graðir, vegna þess einfaldlega að þeir verða að sleppa sæðinu lausu með reglulegu millibili.

Ef þetta allt saman er leið til að styrkja hjónabandið sem stofnun, sem í raun er DYGGÐ í sjálfu sér (þ.e.a.s. að vera trúr; engin kona (sérstaklega ekki alin upp í múslímsku landi þar sem hún hefur enga stöðu í samfélaginu aðra en að vera móðir) vil vera skilin eftir með tíu börn í illra hirtri íbúð í Kabúl), hvað er þá rangt við það að ganga með slör? Og ef kærleikur mannsins til hennar styrkist af því að vita að hún er hans og enskis annars, að enginn annar fær að SJÁ hana eins og hann sér hana heima og þar með aftrar honum frá að fara frá henni vegna annarar konu, þá er slörið í rauninni lífsnauðsynlegt áhald þessara kvenna.

Það er ekki hægt að segja mér að þetta sé kvennahatur eða að konurnar vilji þetta ekki sjálfar, það erum við sem viljum gjarnan að allir séu og láti eins og við gerum hérna fyrir vestan. Þetta er einfalt samkomulag manna og kvenna á milli, og er í rauninni styrkur þess samfélags sem þau lifa í. Ég held að fæstar kvennana vilji vinna úti, þær eiga kannski fimm eða tíu börn, það eru ekki til neinir leikskólar, þær hafa aldrei unnið úti og ef þær gerðu það þá myndu allir halda að fjölskyldan væri að deyja úr hungri og þau væru bláfátæk. Það myndi einfaldlega enginn skilja að konuna "langaði til" að vinna úti. Og ef þær vinna ekki úti er það nauðsynlegt að halda í peningavélina: eiginmanninn. Og hvernig gerir maður það? Maður leggur einfaldlega áherslu á dyggðir múhameðstrúarinnar og sýnir manninum í verki að hann er "hinn eini rétti" fyrir sig.

Ef við hins vegar lítum í eigin barm, í það samfélag sem við búum í, þá er ég hrædd um að við séum komin yfir í hinar öfgarnar. Ef Múhammeð var hræddur um að táningurinn myndi tæla karlmenn úti í bæ með nöktum ökkla, myndi honum ekki blöskra Britney-style magablússurnar, niðurskornar gallabuxur þar sem sést í g-strenginn og alla andlitsmállinguna sem jafnvel stúlkur undir táningsaldri ganga með?

Hvernig vill það til að í okkar samfélagi er það einmitt orðin dyggð að "selja sjálfan sig"? Að vera aðlaðandi, að geta tælt svo marga og vona að maður einn daginn hitti "hinn/a eina/u rétta/u"? Við vitum nefnilega að í rauninni er enginn "réttur" til. Það er of mikið af fólki í heiminum, við lifum of góðu lífi og við erum of frjáls. Við þurfum ekki á hvoru öðru að halda, það er nefnilega allt í lagi (nei, ekki allt í lagi, heldur SJÁLFSAGT!) að við konur vinnum úti og séum sjálfum okkur nægar. Við dröslumst að vísu enn með barneignina, en sem betur fer gerðu fyrirrennarar okkar leikskóla að eðlilegum og sjálfsögðum hlut, og þar með er hlutverki okkar á heimilinu í rauninni ofaukið.

Stundum hugsa ég að konur frá miðausturlöndum á mínum aldri sem eru aldar upp í hinum vestræna heimi séu heppnustu konur í heimi: þær geta valið að fara út á vinnumarkaðinn, þar sem það kemur sér betur fjárhagslega og þykir eðlilegast í samfélaginu, eða þær geta valið að vera heimavinnandi þegar þær hafa eignast fyrsta barnið, en þar að auki hafa þær blæjuna og festa þar með mennina í hefðum foreldranna: þú verður hjá mér vegna þess að ég er góð og dyggðug kona. Þær þurfa aldrei að vera hræddar um að mennirnir fari frá þeim. Af hverju ættum við að banna þeim það?

mánudagur, nóvember 24, 2003

Höfuðpaurinn er súr

Já, það hlaut að koma að því. Hann er vanur að vera dálítið fúll á mánudögum en í dag var það verra. Ég kom seint í dag. Og fór klukkan hálf sex í staðin fyrir klukkan sex eins og ég geri yfirleitt. Það er að segja ef ekki stendur jafn illa á og í síðustu viku þegar ég fór heim uppúr hálf átta öll kvöld. Hann varð svo súr, ég hef aldrei séð annað eins. Hann sagði ekki neitt, varð bara reiður í andlitinu og horfði fúll í hina áttina, þegar ég sagðist vera að fara. Og þegar ég kom í morgun sagði hann "betra seint en aldrei", HALLÓ! Það er ekki eins og ég fá milljón fyrir að sitja þarna daginn út og inn.
Það versta er að maðurinn sagði við mig þegar hann réð mig að ég gæti "komið og farið eins og mér sýndist", já þetta voru hans eigin orð. Og að vegna þess hann gæti ekki boðið uppá mannsæmandi laun sæi hann þetta eins og "lærlingsstöðu" þar sem maður kemur og fer eins og í skólann.
Til að gera ykkur málið ljósara hef ég í fimm vikur unnið mér fyrir 400 Evrum, sem eru u.þ.b. 2 Evrur á klst (160 ISK)! Og enn hef ég ekki séð þess merki að borgunin komi.
Þannig að ef einhver á rétt á því að vera súr, þá er það ÉG!!!
Það góða við daginn að Bernhard keypti handa mér bangsa í sárabætur. Það er lítill gíraffi og heitir Frantizek.

laugardagur, nóvember 22, 2003

Meiri þoka og jólaföndrið byrjar í dag
Borgin er að drukkna í þoku. Hún flýtur um allt eins og mjólkurský í vatni. Hér sést ekki út á næsta götuhorn.
Ég var að drukkna úr vinnu alla síðustu viku, og vann yfirvinnu uppá hvern dag eins og alvöru arkítektanema sæmir. Ég er við að fá alveg nóg af þessu verkefni, en mér sýnist ég verða að fá prófessorinn til að samþykkja þetta sem skólaverkefnið fyrir þessa önn, því ég nota of mikinn tíma í vinnunni og hef þar af leiðandi engan tíma til að sinna önnum verkefnum.
EN: í dag er frídagur, ég ákvað að í dag skyldi ég ekki gera neitt. En manneskja eins og ég á erfitt með að hemja sköpunargleðina (að sjálfsögðu) og ákvað þess vegna að kaupa mér föndurpappír í Libro og byrja jólaföndrið í dag. Mér tókst að gera einn "hjartapoka" áður en ég hálf gafst upp. Þetta er næstum jafn erfitt og í vinnunni!!! Það er miklu meira frí í að horfa út í loftið held ég bara.

Það mikilvægasta er: ég lifi af. Jafnvel í þokunni.

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Þokuborgin ógurlega

Hvít þoka umlukti borgina í dag. Það var ómögulegt að sjá til Gloríettunnar, við vorum sem týnd í götunni okkar. Við hefðum alveg eins getað búið í litlum bæ uppi í sveit, svo lítið af borginni sá ég út um gluggann.

Þegar við komum út á götu (eftir að hafa nauðað í Bernhardi í mjög langan tíma vegna þess að ég vildi hafa einhvern að tala við í göngutúrnum), kom í ljós að borgin lá þarna í þokunni, jafn sótug og vot og hún á að sér að vera á vetrardögum.

Göngutúrinn langi varð í Prater, langa garðinum niðri við Dóná. Þar er ekki meira né minna en fimm kílómetra höfuðstígur, sem við spásséruðum að enda. Stígurinn var einstaklega fallegur í þokunni, það var eins og að ganga að enda veraldar, því við sáum aldrei fyrir endann á honum. Flest kastaníutréin hafa misst öll laufin núna, þau standa dökk, nakin og næstum því draugaleg í þokunni.

Ég er byrjuð að lesa Banana Yoshimoto: N.P á þýsku. Það gengur ótrúlega vel, þökk sé hreinleika japansk skrifmáls (held ég), þótt margt tapist líklega í þýðingunni. Mig langaði að lesa eitthvað og ákvað að lesa á þýsku í staðinn fyrir að taka bók á ensku. Yoshimoto skrifar seðjandi bækur, svo ótrúlega flóknar, spennandi en samt svo, já hvað get ég sagt: hreinar.

Ég kemst ekkert áfram með verkefnið fyrir skólann, ég VIL ekki vinna allar helgar þegar ég er búin að vinna til klukkan sex eða sjö alla vikuna. Er það ekki skiljanlegt? En ég verð að gera verkefnið og það tekst nú allra líklegast, þ.e.a.s. ef ég er dugleg. :-/

laugardagur, nóvember 15, 2003

Við erum á leið til Íslands um jólin.
Spyrjið mig ekki hvernig þetta gerðist; ég ráfaði einfaldlega inn á síðu Flugleiða (hér sjáiði ekta product placement) og fannst miðarnir eitthvað svo billegir, þannig að ég keypti þá.
Þetta kallast víst "spontant shopping" á fagmáli.

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Ég held ég sé að kæfa sjálfa mig í vinnu. Ég geri ekki annað en að vinna finnst mér.

Það er að koma mynd á verkefnið í vinnunni, þetta verður þokkalegt. Ég er að verða ánægð með útkomuna, en er að verða þreytt á verkefninu samt. Gerd höfuðpaur myndi halda mér fram á vor ef hann gæti, allavega varð hann eitthvað aumur þegar ég sagðist vera á leið til Kaupmannahafnar aftur. Ég hélt annars að ég hafði sagt honum það mjög skýrt í atvinnuviðtalinu en hann hafði greinilega gleymt því í millitíðinni! Schade, sagði hann og ég veit ekki betur en glitt hafi í tár í hægra augnkrók.

Ég fór annars á Matrix 3 í gærkvöldi með Claudiu. Fannst einhvern veginn lítið til þeirrar kvikmyndar koma. Ég fattaði reyndar ekki neitt í byrjun því ég sá ekki mynd nr. 2, en varð fljótt með á nótunum (eins og þegar maður dettur inn í Bold and Beautiful hjá mömmu). Þetta var sama ameríska dellan og venjulega, með krossfestingu frelsarans í endanum og til að gera það enn dramatískara, dauði Maríu Magdalenu tæpu korteri fyrr. Myndin er annars stútfull af klisjukendu kossaflensi the Hollywood way, hálfþreyttum bardagasenum (því maður vill jú alltaf eitthvað BETRA, þokkafullra en síðast), "óvæntum" happy ending og ósívílíseruðu blóðbaði. Hins vegar er myndin ágætlega leikin á köflum, tæknilega séð "up to date", með mjög vel gerðum tölvumódelum (enginn DOOM yfir henni þessari), fullkomnri lýsingu og jú, að sjálfsögðu fallegum leikurum.

Þá hafiði það, þið sem ekki hafið séð hana!

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Það sem maður viðurkennir síðla kvölds:
Góðir hálsar,
Stefán Arason er inn.
Auk þess er tunglmyrkvi í kvöld.

laugardagur, nóvember 08, 2003

Haustlitirnir og leikritið í útvarpinu

Það er komið haust. Næstum því vetur. Útum gluggann sé ég ekkert nema litrík lauf trjánna. Birkið er þykk gulbrúnt, skyrækkeren er ljósbrúnn eins og útibarið trédekk, kirsuberjatréð er blóðappelsínugult. Þar á mili standa blágrenið og furan, stöðug í grænu hulunni. Gloríettan er orðin gráleit í þokunni sem leggst yfir borgina á þessum tíma árs, í gráu ljósinu verða litirnir svo skærir, svo réttir.

Leikritið í útvarpinu snýst um ástir og erfiðleika í Rússlandi á stríðstíma (Dostojevskí). "Fyrirgefðu Katsjenka, ég er bara fátækur maður. Ég get ekki gert neitt, ég hef engin ráð!" Þetta virkar svo ólíklegt allt saman. Fyrir það fyrsta; útvarpsleikrit. Eftir að vera mötuð á sjónvarpsefni frá barnsfæðingu, finnst manni leikrit í útvarpi ósköp yfirlætisleg, jafnvel illa leikin. Kannski á maður svona erfitt með að ímynda sér þau, hljóðlúksuss kvikmyndanna hefur minnkað getu okkar til að ímynda okkur í eyðurnar. Fyrir það annað: stríð! Hvað er það? Hér á þjóðhátíðardaginn síðasta var ég jú minnt á hversu langt stríðsástand er frá okkur: þessar fínu stríðsvélar sem austurríski herinn var að kaupa sér vitna jú um að stríð er orðið eitthvað sem maður sér í sjónvarpinu. Eitthvað sem maður getur reddað fyrir horn ef maður á svona fínar stríðsflugvélar. Búmm búmm og svo er það búið, maður verður ekki einu sinni skítugur um hendurnar.

Talandi um skítugar hendur, ég gæfi mikið fyrir að komast í almennilega vinnu í augnablikinu, til að fá hendurnar í mold. Vinna úti og sjá afrakstur erfiðisins. Ég segi það, ég hefði átt að verða garðyrkjufræðingur!

Lokaorðin í útvarpsleikriti dagsins voru: "Morgen wird ein schöner Tag". Ég efa það nú. Í dag er ótrúlega fallegur dagur. Maðurinn minn sofandi svo vært inni í rúmi og ég í fullkomnum friði með sjálfri mér og verkefninu mínu. Í kvöld: matur hjá tengdó. Hversu mikils annars getur kvenmaður óskað sér?! ;-D

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Hið fyrsta tölvumódel /sbr hið fyrsta spor

Jebb, ég sit og reyni eins og rjúpa við staur (hvaðan í fjandanum kom það máltæki) að töfra fram tölvumódel af þeim stað þar sem ég ætla að gera verkefnið mitt. Þið getið rétt: þetta er mitt fyrsta tölvumódel. Ég skammast mín svo sem lítið fyrir það að hafa ekki látið heillast af slíkum módelum fyrr, þetta er ósköp lógískt þegar maður setur sig inn í það. Hefur bara alltaf þótt þessi módel svo ljót en ákvað að nú væri ég orðin of fullorðin til að sleppa því lengur.
Ég er að ná mér eftir helgina svona smátt og smátt. Svona eftir á að hyggja var samkeppnin betri en ég hélt á meðan við vorum að vinna að henni, ekki svo slæmt, við vorum með góðar hugmyndir en ekki nægan starfskraft kannski til að sýna allt sem í hugmyndunum bjó.
Hef verið ansi léleg í mætingu í vinnuna í þessari viku, ég held að Gerd (höfuðpaurinn) sé ekkert of hrifinn af því, en ég reyni að minka þessa fráveru. Stundum verður maður bara að sofa.
Ég verð betri og betri í þýsku, tala enda þýsku allan daginn í vinnunni. Það er drulluerfitt eins og þið getið ímyndað ykkur, en ég er að ná tökum á þessu, sérstaklega linu eLLunum sem eiga að gefa í skyn að maður komi frá "verri helmingi" bæjarins. Claudia, stúlkan sem ég vinn með og neitar að vinna meira en fimm tíma á dag fyrir sömu laun og ég og Daniela (sú albanska) er annars ágætur vinnufélagi, talar stanslaust sem náttúrlega er prima fyrir mig, þar eð ég læri mikið af henni. Hún segir líka "irrsinnig" sem kemur sér vel fyrst ég fíla það orð. Hún hefur samt greinilega fordóma gagnvart hverju sem er (t.d. fólki sem kemur frá Meidling (þar sem verkamennirnir búa) en er sjálf frá Ottakring, sem er ekki mikið betra hverfi ef maður býr þar sem foreldrar B. búa). T.d. hef ég heyrt mikið um hvernig Þjóðverjar eru, hvernig Tyrkir eru, hvernig svartir eru, hvernig þetta lið frá Meidling er, hvernig helvítis Englendingarnir eru. Mjög interessant og segir mér meira um hana en þessa ágætu þjóðflokka. Brynja: hér er case fyrir nútímarannsóknir á sýn ungs fólks á minnihlutahópum og öðrum hópum. Ég fíla mig eins og í einu stanslausu opnu rannsóknarviðtali. Mjög athyglisvert.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Þetta var nú meira vesenið.
Eins og ég hata stress held ég að ég hafi valið ranga atvinnugrein. Þetta voru mistök. Allt saman. Hefði átt að verða matvælafræðingur. Bókasafnsfræðingur. Fornminjasali.
En jú, nú er samkeppnin send af stað. Það tókst þá, með tveimur svefnlausum nóttum. Og það fyndna: við fengum bíl föðursins lánaðan á sunnudagskvöldið til að keyra heim (við fengum leyfi til að prenta á skrifstofunni hans) og klukkan hálf fjögur vorum við búin og að sjálfsögðu geðveikt þreytt, þannig að við nenntum ekki að leita neitt sérstaklega lengi að bílastæði, en fundum ekkert þannig að við lögðum bílnum á fjölförnum vegi ekki langt frá. Næsta dag klukkan 9 þurftum við svo að fara með pakkann á pósthúsið og höfðum skilið hann eftir í bílnum um nóttina. Viti menn: bíllinn er horfinn. Sjáum þá skilti ekki langt frá þar sem stendur að það megi ekki leggja þar frá klukkan hálf sjö til níu á morgnanna! Bad luck!
Jú, samkeppnin enn í bílnum og nú hófst kapphlaupið um að ná á pósthúsið fyrir klukkan þrjú þegar fresturinn hljóp út. Jú, jú, ekki er frá öðru að segja en að það heppnaðist eftir klukkutíma túr með lest og strætó og hálftíma labbi á milli hraðbrautaútkeyrslna einhvers staðar langt útí sveit. Spennandi.
Og ég er svo þreytt að ég held augnalokunum ekki uppi. Ég þurfti náttúrlega að mæta í vinnu í gær og vinna upp alla tímana sem ég kom of seint, þannig að ég hef enn ekki náð mér eftir uppistandið.
En það gerist líklega fljótlega.
Vonum við.