Slörið og hinn vestræni heimur
Mig hefur lengi langað til að tjá mig um þessa slörumræðu Dana. Las grein í Weekendavisen (síðan um helgina) um einmitt þessa umræðu: á að banna múslímskum konum að ganga með slör á opinberum stöðum?
Hér fékk ég loks að vita hvar í kóraninum það stendur að konur eigi að hylja sig. Þetta er þegar spámaðurinn sér að dóttir sín er orðin fullþroska ung kona. Þegar þetta rennur upp fyrir honum segir hann við dóttur sína: "þegar stúlkur eru komnar á túr eiga þær ekki að sýna annað af líkama sínum en þetta og þetta" og bendir á andlit og hendur. Ég veit ekki af hverju þetta fékk mig til að hugsa, en hér finnst mér í rauninni skýna í ástúð föðurs fyrir dóttur; hann getur ekki hugsað sér að karlmenn girnist dóttur hans (sem ábyggilega er eftir hefðinni lofuð öðrum). Í rauninni hefur hulan í þessu tilfelli ekki mikið með hina giftu konu að gera, heldur þá ungu konu sem hann er hræddur um að missa út í lífið og frá þeim samningi sem hann hefur gert um að gifta hana.
Eftir því sem ég best get skilið af "innamoramento e amore" (Francesco Alberoni), er þessi hulning í raun mjög skiljanleg í samfélagi sem afneitar því að verða "ásfanginn" sem í raun er vestrænt fyrirbæri. Í múslímsku samfélagi er það nauðsynlegt að styrkja hjónabandið sem stofnun, það er ekki leyfilegt að verða ástfanginn af öðrum en þeim maka sem þér er ætlaður, og þar með verður hulning konunnar í rauninni einfaldasta lausnin. Hún er heima og sér um börnin á meðan maðurinn er úti að vinna: lífið væri þeim jú óbærilegt ef þeir þyrftu að ganga um huldir frá toppi til táar allan daginn bara vegna þess að stelpurnar mættu ekki sjá þá. Önnur skýring er að Múhammeð vissi vel að karlmenn eiga auðveldara með að verða graðir, vegna þess einfaldlega að þeir verða að sleppa sæðinu lausu með reglulegu millibili.
Ef þetta allt saman er leið til að styrkja hjónabandið sem stofnun, sem í raun er DYGGÐ í sjálfu sér (þ.e.a.s. að vera trúr; engin kona (sérstaklega ekki alin upp í múslímsku landi þar sem hún hefur enga stöðu í samfélaginu aðra en að vera móðir) vil vera skilin eftir með tíu börn í illra hirtri íbúð í Kabúl), hvað er þá rangt við það að ganga með slör? Og ef kærleikur mannsins til hennar styrkist af því að vita að hún er hans og enskis annars, að enginn annar fær að SJÁ hana eins og hann sér hana heima og þar með aftrar honum frá að fara frá henni vegna annarar konu, þá er slörið í rauninni lífsnauðsynlegt áhald þessara kvenna.
Það er ekki hægt að segja mér að þetta sé kvennahatur eða að konurnar vilji þetta ekki sjálfar, það erum við sem viljum gjarnan að allir séu og láti eins og við gerum hérna fyrir vestan. Þetta er einfalt samkomulag manna og kvenna á milli, og er í rauninni styrkur þess samfélags sem þau lifa í. Ég held að fæstar kvennana vilji vinna úti, þær eiga kannski fimm eða tíu börn, það eru ekki til neinir leikskólar, þær hafa aldrei unnið úti og ef þær gerðu það þá myndu allir halda að fjölskyldan væri að deyja úr hungri og þau væru bláfátæk. Það myndi einfaldlega enginn skilja að konuna "langaði til" að vinna úti. Og ef þær vinna ekki úti er það nauðsynlegt að halda í peningavélina: eiginmanninn. Og hvernig gerir maður það? Maður leggur einfaldlega áherslu á dyggðir múhameðstrúarinnar og sýnir manninum í verki að hann er "hinn eini rétti" fyrir sig.
Ef við hins vegar lítum í eigin barm, í það samfélag sem við búum í, þá er ég hrædd um að við séum komin yfir í hinar öfgarnar. Ef Múhammeð var hræddur um að táningurinn myndi tæla karlmenn úti í bæ með nöktum ökkla, myndi honum ekki blöskra Britney-style magablússurnar, niðurskornar gallabuxur þar sem sést í g-strenginn og alla andlitsmállinguna sem jafnvel stúlkur undir táningsaldri ganga með?
Hvernig vill það til að í okkar samfélagi er það einmitt orðin dyggð að "selja sjálfan sig"? Að vera aðlaðandi, að geta tælt svo marga og vona að maður einn daginn hitti "hinn/a eina/u rétta/u"? Við vitum nefnilega að í rauninni er enginn "réttur" til. Það er of mikið af fólki í heiminum, við lifum of góðu lífi og við erum of frjáls. Við þurfum ekki á hvoru öðru að halda, það er nefnilega allt í lagi (nei, ekki allt í lagi, heldur SJÁLFSAGT!) að við konur vinnum úti og séum sjálfum okkur nægar. Við dröslumst að vísu enn með barneignina, en sem betur fer gerðu fyrirrennarar okkar leikskóla að eðlilegum og sjálfsögðum hlut, og þar með er hlutverki okkar á heimilinu í rauninni ofaukið.
Stundum hugsa ég að konur frá miðausturlöndum á mínum aldri sem eru aldar upp í hinum vestræna heimi séu heppnustu konur í heimi: þær geta valið að fara út á vinnumarkaðinn, þar sem það kemur sér betur fjárhagslega og þykir eðlilegast í samfélaginu, eða þær geta valið að vera heimavinnandi þegar þær hafa eignast fyrsta barnið, en þar að auki hafa þær blæjuna og festa þar með mennina í hefðum foreldranna: þú verður hjá mér vegna þess að ég er góð og dyggðug kona. Þær þurfa aldrei að vera hræddar um að mennirnir fari frá þeim. Af hverju ættum við að banna þeim það?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli