Fyrsta þrumuveður sumarsins og annað smotterí
Ólíkt Sigrúnu Gísla miða ég sumarkomuna ekki við grill, heldur þrumuveður. Í gær var einmitt fyrsta þrumuveður sumars, stundvíslega klukkan kortér yfir eitt. Ég var hjólandi á leið í skólann, átti að mæta þar hálf tvö, og lenti þess vegna svona skemmtilega í duttlungum veðurguðanna. Það svoleiðis stóð demban niður, að ég hefði alveg eins getað farið í sturtu. Það er ekki í frásögur færandi að ég varð blaut inn að beini og þurfti að vera berfætt á fundinum.
Til að bæta við grámyglu femínista má ég til með að deila með ykkur sögu úr kóngsins (drottningarinnar) Kaupinhafn. Nú er svo mikið rætt um komandi barn krónprinsins og sveitastúlkunnar frá hinum enda jarðarinnar, því ef svo vill til að stúlkubarn fæðist, þá er ekki vízt að hún sé komandi drottning fyrr en öll börn eru fædd hjónakornunum. Í lögunum stendur nefnilega að drengsbarn hafi fyrstarétt til krúnunnar. Flestum hér í landi (á mínum aldri) þykir þetta heldur gamaldags. Hins vegar eru ráðandi þingmenn ekki sammála því þeir nenna ekki að standa í því að breyta lögunum eða yfirleitt tala um málið fyrr en barnið er fætt (Anders Fogh sagði að "þetta væri svo mikið mál" - je ræt). Allavega var verið að tala um þetta í útvarpinu um daginn og þá kom einhver af eldri þingmönnum og sagði að honum finndist svona lagabreytingu ekki koma til greina því að "það væri svo erfitt að vera konungur, að honum myndi ekki detta það í hug að leggja það á herðar stúlku"!!! Talandi um gamaldags hugsunarhátt. Ég hefði getað skilið hann ef þetta væri sjötti áratugurinn, en þetta finnst mér of mikið á því herrans ári tvöþúsundogfimm (sakniði ekki tékkheftanna? -sú var tíðin!).
Við B. keyptum okkur miða til Íslands í gærkvöldi. Ég segi ekki annað en: það er dýrt að ferðast á miðjum degi (allt fyrir Tobba litla). Njótið þess að vera barnlaus (það er að segja ef þið eruð barnlaus).
Og að lokum, góðar fréttir gott fólk: Tobias er farinn að sofa aftur á nóttunni. Jibbí!
þriðjudagur, maí 03, 2005
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)