föstudagur, desember 19, 2003

Þunn

Það er eitthvað eins og þunnfljótandi jógúrt í öllum liðum eftir jólapartí gærdagsins. Fyrst var farið í trefjaplast-snjóhús í Museumsquartier að drekka glögg og púns eins og ekta artí gengi sæmir. Þar á eftir var haldið á einhvern hryllilega gamlan og hálf ógeðslegan stað að sötra öl. Ég svo sver það: veggfóðrið var dökkbrúnt af sóti. Mjög líklega var síðast veggfóðrað þarna í byrjun aldarinnar.
En allavega. Ofboðslega þykir mér vænt um þetta fólk. Og þó ég hafi fyrrum kvartað yfir höfuðpaurnum verð ég að segja að hann er klárasti arkítekt sem ég hef nokkurn tíma komist í snertingu við. Þar að auki er hann vinur minn. Det er i hvert fald noget!

fimmtudagur, desember 18, 2003

Skilda vera jólahjól?

Meira að gera en áður en að ég hætti í vinnunni. Skil ekki hvernig ég get dregið sjálfa mig svona áfram á asnaeyrunum. Búin að vera á stanslausri ferð með Juliane vinkonu. Það er búið að vera gaman en erfitt. Ég skilaði henni svo til annarar vinkonu í kvöld. Ég er nefnilega að fara í jólaveislu vinnunnar.

Ég hlakka hrikalega til að komast heim.

Og í óspurðum fréttum: söngvadrengirnir voru falskir. Ramm.

laugardagur, desember 13, 2003

Síðasta vikan í Vín

Þið trúið því ekki: ég er á förum frá Vín. Einhvern veginn er þetta hálfótrúlegt, ég skil ekki hvernig tíminn getur liðið svona hratt. Í gær þegar ég fór úr vinnunni lá mér við gráti, ég trúi því varla að á mánudaginn sé síðasti dagurinn minn í vinnunni.

Mér líkar svo vel að vinna hjá þessu fólki að það er með eindæmum (verð ég ekki alltaf súr á síðustu vikunni og hata liðið út af lífinu?: nei, hér er ekki svo!). Höfuðpaurinn og ég erum orðnir svo góðir vinir eftir allt baslið. Bernhard varð eitthvað hálf asnalegur þegar ég fékk sms frá honum í morgun (hafði fengið það seint í gærkveldi, en var náttúrlega sofandi þá), en ég held að hann sjái mig núna eins og vinnufélaga, ekki bara hvern sem er, heldur vinnufélaga sem maður bæði getur stólað á og deilt verkefninu gjörsamlega með. Þið sem eruð í mússíkinni getið kannski ímyndað ykkur það samband sem verður á milli fólks sem vinnur svo náið saman, og sérstaklega ef samstarfið er erfitt en gengur samt vel: það er eins og verkefnið eigi okkur, við í rauninni ekki það. Og í gegnum verkefnið verðum við svo náin, það er eins og við séum hluti af þessu húsi, við lifum fyrir það, óskum okkur vissrar framtíðar fyrir það. Allavega, hann er frábær og ég á eftir að sakna hans. Líka hvernig hann er súr á mánudögum og aðeins betri á þriðjudögum og þegar hann kemur með hugmyndir sem hann faxaði að heiman klukkan hálf tólf á fimmtudagskvöldi.

Á morgun er kökubakstur hjá Noru gömlu, ásamt messu í fyrramálið með "Wiener Sängerknaben", ég varð að óska mér að fara á tónleika með þeim fyrst ég er hér í Vín, annað var ekki hægt!

Jólakortalistinn bíður. Ekki vera súr ef ég gleymi einhverjum! Og í guðanna bænum, sendið mér heimilisföngin ykkar ef ykkur langar í póstkort frá Vín: nú er síðasta útkall!!!

þriðjudagur, desember 09, 2003

Jóla jóla

Já, jólastemningin kom yfir mig um helgina. Aldrei upplifi ég komu jólanna jafn sterkt og inni í húsi úti á landi um kvöld, við opinn himinn (jafnvel fullt tungl til að fullkomna klisjuna), dimm fjöll allt í kring og snjórinn fellur í stórum dúnhnoðrum...

Jólin komu á laugardagskvöldið í Hallein. Mér fannst ég næstum vera komin heim og hugsaði með mér að við gætum nú alveg eins búið í litlum bæ í Salzburgarlandi með skökk hús og tveggja metra breiðar götur.

... Ég hætti við daginn eftir þegar ég sat í strætó á leiðinni á jólamarkaðinn í Salzburg. Fyrir framan mig sat tíu ára gutti og þegar hann opnaði munninn stirnaði ég upp. Aldrei, aldrei, aldrei í lífinu mega börnin mín tala svona ljóta mállýsku. Ég á ekki til orð til að lýsa því babli sem hann lét út úr sér. Það var samansafn einkennilegustu hljóða sem ég nokkurn tíma hef heyrt nokkurn mann láta út úr sér.

Jólamarkaðurinn í Salzburg (sem nota bene yfirtók allan hinn sögulega miðbæ borgarinnar) var hin mesta skransala sem maður getur hugsað sér. Eins og raunin er jú yfirleitt með þessa markaði. Fyrir það fyrsta skil ég ekki hvernig hægt er að framleiða svona mikið af ljótu dóti. Fyrir það annað var verðið gjörsamlega uppúr öllu valdi. Þá held ég að það sé skárra að sjoppa í Penzing bara, ha, eða í Meidling, þar sem maður fær sama draslið, en hins vegar á spottprís. Og glögg og púns getur maður sömuleiðis keypt hér í bæ á þrjár Evrur. Pöhh!

Auk þess var markaðurinn þéttsetinn af Ítölum, Þjóðverjum, Rússum og ég veit ekki hvaða útlendingum öðrum sem voru á höttunum eftir ekta austurrísku hygge! Það var ekki þverfótandi fyrir æstum skrílnum sem jú allur vildi kaupa kaupa kaupa sig fullan af jólastemningunni. Við Bernhard reiknuðum ekki með að fá meiri jól útá að kaupa, þannig að við kíktum bara. Í sjónvarpinu sama kvöld var tekið viðtal við nokkra af þessum sömu skransölum og þeir sögðu margir: "Uppáhalds kúnnarnir eru Ítalarnir. Þeir eru kaupglaðir. Hinir skoða bara."

Jeps, við horfðum MIKIÐ á sjónvarpið um helgina. Enda komin með sjúklega löngun eftir margra mánaða sjónvarpspásu. Og það var vont. Mjög vont. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni horft á jafn mikið rusl í einum trekk. Og það þess vitandi!!! Ótrúlegt.

Ég er alveg að sjá það að í jólamánuðinum verður kitsch inn. Merkilegt nokk. Á mörgum hurðunum í stigaganginum er búið að hengja jólakransa, sem er alls ekki slæmt. En það sem er slæmt er að þeir eru skemmtilega misjafnlega fallegir. Sumum jaðrar við að vera úr geymslunni hjá afa, síðan á sjötta áratugnum. Hins vegar er það mjög eðlilegt og jafnvel bráðnauðsynlegt að skreyta á sinn hátt, og svona krans getur í rauninni sagt mikið um hver býr á bak við dyrnar. Það er í sjálfu sér athyglisvert og ætti fólk jafnvel að skreyta dyrnar hjá sér allan ársins hring.

Lifi ornamentið!

miðvikudagur, desember 03, 2003

...Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég FER í fríið!

Búið að vera meira að gera í vinnunni hjá mér í þessari viku. Ástæðan er sú að ég er á leiðinni til Salzburg með mínum ástkæra um hádegisbil á morgun. Við verðum þar fram á mánudagskvöld og sjáum líklega eitthvað af landinu í leiðinni.
Mmmm, frí! Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað þetta þýðir fyrir mig. Nýr heimur!
Annars fékk ég góða hugmynd í lestinni á leiðinni heim í kvöld:
Græðum Afganistan!
Með hverjum lítra sem þú kaupir af bensíni, rennur ein króna af verðinu til samevrópska lúpínuverkefnisins "Græðum Afganistan". Eftir tuttugu ár verður landið fullgróið, landbúnaður getur hafist að nýju, landið verður aftur túristavænt og já... Al Quaida verður ekki annað en stórt mjólkurbú.