miðvikudagur, apríl 28, 2004

Gleðibankinn

Mikið á ég að þakka honum Gumma frænda fyrir að gefa mér best of Magnús Eiríksson! Í hvert skipti sem ég er ein heima get ég laumast til að setja þessa svakalega hallærislegu mússík á (að mati hins ástkæra, enda nenni ég sko heldur ekki að hlusta á eitthvert austurrískt píkupopp frá '84!), og þvílík unun! Maður kemst í gamla Júróvisjónfílinginn og sér loks hið bjarta í tilverunni!

(Svona fyrir reynda bloggara; hafiði tékkað á pro-american fréttum og auglýsingum Bloggers? Þetta er næstum því fyndið!)

Talandi um Ameríku, þá hitti ég stundum Ameríkana í skólanum og annars staðar, og það hlægilega er að þau eru ekki að fatta af hverju helmingur Evrópubúa eru skeptískir á "the American Dream" þjóðfélagið sem þau búa í! Reyndar ætti maður sem Íslendingur að tékka á því af hverju íslenskt þjóðfélag og sýstem líkist amerísku meira og meira? Það er dálítið djúpt í árina tekið að halda því fram að samfélag á stærð við íslenskt geti tekið upp nákvæmlega sömu stefnu og "risinn" í heilbrigðis, mennta-, viðskipta- og skattamálum! En jú, Íslendingar hafa alltaf litið stórt á sig... Sjáum hvað setur!

Bernhard tók sig til og keypti á mig skó í dag! Þeir eru eiturgrænir og gulir og fílingurinn er eins og að ganga um í fíflum! Ég held að kannski þetta hafi verið einhvers konar "andartaksgeðveiki" (eða heitir það ekki svona í sakamálaþáttunum?), en hvað! Ég geng í þeim þótt það sé hægt að hlæja að mér í fimmtíu metra radíus. Annars veð ég í gjöfum í augnablikinu, já í bókstaflegum skilningi. Mamma kom nefnilega færandi hendi með þrjár blússur sem geta teygst út í hið óendanlega og eiga eftir að reynast vel í sumar.

Reyndar skil ég ekkert í því að það sé hægt að vera komin fimm mánuði á leið án eins einasta plúskílós. Ég hef verið svona svakalega vel í holdum fyrirfram! Eða þá er ég að reyna of mikið á mig með því að hjóla í skólann á morgnanna (ég reyndar er við að fá hjartaáfall í hvert skipti á síðustu skrefum upp tröppurnar í skólanum)! En ég læt það ekkert á mig fá.

mánudagur, apríl 19, 2004

Eftirpáska

Ég er búin með allt innúr páskaegginu en gengur tregt að brjóta niður skurnina. Eru fleiri sem eiga í þessum vandræðum? Best væri að "snúa egginu á rönguna" og selja poka með innvolsi í og svo lítilli eggjakúlu fyrir innan allt nammið. Það er ekki í frásögur færandi að Bernhard er sérstaklega hneikslaður á matarvenjum mínum þegar um er að ræða páskaegg.

Í persónulegum fréttum er þetta helst að frétta: A. Ég er að komast yfir erfiðleika páskafrísins, líklega búin að úttala illsku mína gagnvart umræddri konu. B. Ég er að venjast kalda vatninu í lauginni. C. Hið óborna sparkar kröftuglega inni í mér á hverjum degi.

Þar að auki fékk Bernhard tilboð um vinnu hjá UN World Food Programme en ég sagði við hann að hann mætti ekki fara frá mér núna. Hann skildi það svo sem þótt að hann hafi í alvörunni hugsað málið, en við erum að plana að halda okkur opnum fyrir svona vinnu eftir að ég er búin með skólann, kannski eftir eitt ár. Ekki það að ég sé tilbúin til að fara til Sri Lanka og vera heimavinnandi húsmóðir eins og sumir sem við þekkjum! En ef ég gæti fengið einhverja samsvarandi vinnu, bara við arkítektúr, skipulag eða svipað, þá stendur ekkert í vegi fyrir því að flytja til útlanda! ;.D (Júbbí!)

föstudagur, apríl 16, 2004

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Hversdagsleikinn snýr aftur (the return of the quotidien)

Þeir sem við á fá mína innilegustu afsökunarbeiðni vegna fjarveru minnar í bloggheiminum. Hér hefur mikið verið að gera og ekki allt jafn skemmtilegt. Rétt fyrir páska voru milliskil á verkefninu, fylgjandi ógleði í bókstaflegri merkingu orðsins, helgarþreyta þar af leiðandi og tengdó í heimsókn alla páskana.

Merkilegt að á þessum fimm dögum tókst minni ástkæru tengdamóður að tapa því út úr sér að hún ekki vissi til þess að Ísland tilheyrði Evrópu frekar en Ameríku, best væri fyrir hið óborna barn að ég væri gift manninum (því þannig er það í Austurríki), danska heilbrigðiskerfið væri plat og það væri miklu betra bara að fæða þetta tiltekna barn í Vín, og, rúsínan í pulsuendanum; að ég ætti kannski að sleppa kvöldmáltíðunum hér eftir þannig að ég myndi grennast doldið. Það er ekki í frásögur færandi að hið kalda stríð er hafið að nýju. Noone messes with ME! Ég er hundleið á því að segja Aha og jájá; hér eftir fær hún að heyra það eins oft og þarf að það er ÉG sem ræð í mínu lífi. Og það er enginn annar en ÉG og Bernhard sem ölum þetta barn upp og lifum því fjölskyldulífi sem okkur sýnist. Annað væri óréttlætanlegt. Hún er nú þegar búin að fá sinn séns!

Að koma aftur eins og í skólann var eins og að synda í OF kaldri laug: fyrst var það sjokk að fatta að það er svo lítill tími eftir og ég á eftir að ná að gera svo margt. Þar á eftir kom sprettur á mig og ég kláraði plakat fyrir LFB, hljóp eins og vitleysingur um allan skólann til að prenta o.s.frv. En í dag er ég bara þreytt. Vatnið er of kalt, ég þarf að venjast því aftur.

Hins vegar er vorið komið til að vera í augnablikinu. Það er sól á hverjum degi og í stóru görðunum er fólk farið að safnast saman með bjór í hönd og njóta góða veðursins. :-D Það er þá þess virði eftir allt saman að upplifa veturinn til að geta notið vorsins.