mánudagur, júní 21, 2004

Hrakfarir

Ég er ekki fyrr farin að losna við marbletti hjólaslyssins en að Bernhard tekur sig til og þrykkir dansk-enskri orðabók í augað á mér! Hvað er málið?

miðvikudagur, júní 09, 2004

Hjólaleitin mikla

Ég prófaði hjól áðan sem mér leist svakalega vel á (nema að hnakkurinn var of neðarlega, en það er annað mál). Ég fór sem sagt í smátúr með hjólið til að tékka á hvernig mér fyndist að hjóla á því. Það gekk eins og að prófa léttan, japanskan bíl þegar maður er vanur að keyra á volvónum. Ansi óstöðugt á köflum, því hjólið er jú úr áli og þess vegna sérstaklega létt. Allir gírar einstaklega auðveldir í notkun og þrælþægilegt/ auðvelt að hjóla á því. Það má þess geta til gamans að þetta er karlahjól, því ég nenni ekki sigla um á einhverju dömuhjóli (humpf!).
En fyrir þá sem ekki þekkja til Anette (gamla hjólsins), verður að segjast að það hjól er með eina handbremsu sem ekki virkar sérstaklega vel, þar sem hún er gömul og stirð, og hefur aldrei verið góð (sérstaklega ekki eftir að hún datt af í síðustu viku). En þetta nýja hjól sem ég nú er að hugsa um að kaupa er með nýtísku bremsum, sem að sjálfsögðu eru þrælgóðar.
Ég fór semsagt lítinn hring á hjólinu, var komin á dálitla ferð og ætlaði að hægja á mér: viti menn, bremsurnar VIRKA! Ég kollsteyptist af hjólinu á miklum hraða, sem betur fer í friðsælli götu. Og er svona líka bólgin á höndum og báðum lærum! Sem betur fer virðist líkaminn vera með "höfuðið" í lagi, mér tókst að fá högg á allt nema magann, og jú hausinn. Skidesmart.
Tókst að sjálfsögðu að eyðileggja bæði bjöllu og "gírstjórnina", mjög pínlegt, en maðurinn í búðinni var hinn vinsamlegasti, sagði að hann hefði átt að vara mig við! Og ég þurfti ekki einu sinni að borga fyrir skemmdirnar.
Bernhard hins vegar tók þetta netta kastið, hljóp út í apótek að sækja spritt og plástra og bjó svo um bágtið/-in.
Þetta var sjúkrasagan í dag.