fimmtudagur, janúar 29, 2004

Öll að koma til

Stressið er að dvína þar sem mér tókst að laga powerpointinn skuggalega mikið. Þannig að ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta fari vel á morgun.

Auk þess gabbaði ég Bernhard með mér í bíó í gær (að læknisráði reyndar), á myndina Anything Else (nýjustu útungun Woody Allen). Ég mæli eindregið með henni þótt hún hafi verið þreytandi á köflum. Það er að koma einhver einkennileg ró yfir manninn, myndin er næstum því hugleiðsluleg. (Hver man ekki eftir myndum eins og Sleeper þar sem allt gerist svo hratt að maður nær varla að fylgjast með (en já, þá var hann líka 30 árum yngri!)?) Og hér eru þau málefni sem oft hafa dúkkað upp í myndunum hans sett á oddinn: gröfum við okkar eigin gröf með að vera hrædd við "hina" (kynþáttahatara, nýnasista, lægri stéttirnar, innbrotsþjófa)? Frelsið er mikilvægt en er það mikilvægara en öryggið sem felst í því að festa rætur? Eða er maður aldrei öruggur nema maður eigi riffil heima í stofu (eða skambyssu "within reach in every room" eins og karlinn svo snilldarlega orðaði það)?

Auk þess er Woody Allen alltaf fyndinn. Þannig er hann bara.

mánudagur, janúar 26, 2004

Aaaaaarrrggghhh!

Skilum verkefnisins var frestað til föstudags! Hvernig er hægt að gera mér þetta, sitjandi hérna með tæringu liggur við af stressi og hringja svo bara í mig og segja að ég þurfi að bíða í þrjá daga! Það liggur við að ég þurfi að taka róandi, mér líður eins og fé á leið til slátrunar. Það getur vel verið að þetta sé allt ástæðulaust hjá mér, en illu er best aflokið.

Og því miður ekki lokið fyrr en á föstudagseftirmiðdegi. Hjáááálp!

þriðjudagur, janúar 20, 2004

Svefninn

Nei, þreytukastið er ekki liðið hjá. Það mætti halda að ég væri löggst í hýði, sef eins og skógarbjörn, já eða alvöru prinsessa og prinsinn reynir ekki einu sinni að vekja mig... Nema stundum. Það er greinilega ósköp ljúft að sofa af sér vetrarmorgnana (stórskrýtið að maður kalli þetta morgna þessar gráu verur sem kíkja inn um gluggann með skuggalega óró í augum), kannski langt fram á dag og halda svo að manni takist að vinna að einhverju bráðsnjöllu verkefni langt fram á kvöld. En nei, svefnlöngunin kemur upp aftur um kvöldmatarleitið og ágerist svo með hverju strikinu sem maður vinnur á tölvuna að á endanum lætur maður undan. Yfirleitt miklu fyrr en maður hafði ætlað.

Nújá, og svo tókst mér að stúta einum fyrirlestrinum í morgun sem ég svo blessunarlega ekki fann nægan tíma til að lesa fyrir. Þegar að því kom að ég átti að ræða um efni greinanna mundi ég að sjálfsögðu mest allt sem ég hafði lesið... en hins vegar á þann hátt sem ég mundi það! Og þegar prófessorinn svo fékk orðið á eftir mér þurfti ég að éta flest allt ofan í mig sem ég hafði sagt... Það var greinilega ýmislegt sem ég hafði ekki lesið á milli línanna eða kannski er ég bara alls ekki nógu góð í ensku eftir allt. Ég hafði misskilið hinar global borgir gjörsamlega. Gúlp!

Og þessi ærandi hræðsla kemur upp: er ég svona vitlaus?! Sem betur fer voru greinilega fleiri sem höfðu átt erfitt með að skilja pointið í greinunum. Þannig að ef ég er SVONA vitlaus, þá eru margir aðrir það líka. Guðisélof.

Svona þess utan er það að frétta að við Juliane ætlum að halda upp á afmælin okkar (51 árs afmæli samanlagt) á Valentínusarkvöld. Svo ef einhvers verður freistað í þessum töluðu orðum: skellið ykkur til Köben! Þetta verður það albesta partí sem þið hafið komist í í áraraðir. Ég er nefnilega að íhuga að gera sangríuna sem sló svo ærlega í gegn í innflutningspartíi okkar frönsku vinkvennanna í Lyon 99. En þið munið líklega ekki eftir því. Þannig að látið ykkur ekki vanta! :-D

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Eins og rjúpan

Ég er hér ennþá og rembist eins og svo margar rjúpur við staurinn /-ana. Ég virðist hafa dottið út í eina viku, hef sofið alveg svakalega (allavega tíu tíma hverja nótt), veturinn virðist vera að ná taki á mér. Er núna að reyna að koma mér uppúr letikastinu, gengur í rykkjum.
Eins og mér finnst verkefnið okkar frá Blumengasse vera yndislegt og gott verkefni, þá veit ég ekkert þunglyndislegra en að vinna alla nákvæmnisvinnuna sem liggur í að gera verkefnið skilahæft. Stundum vildi maður óska sér að engum hefði dottið í hug að vinna teikningar á tölvu. Í gamla daga var þetta svo einfalt, maður tók bara blað og góðan penna og krotaði eitt stykki verkefni á það. Búið mál. Með tölvunum er maður innlimaður inn í heim tölvugrafíkarinnar, allt á að vera svo fullkomið vegna þess að einhver sagði að það væri svo auðvelt: já, maður ýtir reyndar á einhverja takka en hins vegar er það tímafrekara en að taka sér trélit í hönd og alls ekki eins einfalt og af er látið.
En jæja. Ef ég geri þetta í tölvunni er ég blessunarlega laus við að borga mörgþúsund krónur fyrir að prenta draslið út því við (ég og kennarinn) ákváðum að hafa það á "beamernum" í þetta skiptið. Aaah, léttir allavega á veskinu.
Bernhard fékk tímabundna vinnu við tölvur (grafík, ég er að segja það; hún ríkir yfir heiminum!), sem betur fer því þá hef ég meiri frið hérna heima í næstu viku til að klára verkefnið. Og jú, líka betra fyrir budduna, svo ekki sé minnst á skapið.
En hvað ég vildi óska þess að ég væri í frumskóginum með Hirti núna. Þessi slydda er að æra mig.

þriðjudagur, janúar 06, 2004

Heim í kotid

Leidinlegt med thennan kulda. Her er myrkrid ívid léttara en á Fróni en eina vandamálid virdist vera ad lifa kuldann af. Auk thess er madur andstuttur og heldur ad madur deyji á midri leid í skólann.
Ég fékk hardsperrur í alla vödva eftir fyrsta túrinn. Greynilegt ad ég hef ekki hreyft mig mikid sídustu mánudina.
Í skólanum er allt vid thad sama. Ótrúlega margir nýjir mættir en thó alltaf kunnugleg andlit á milli.
Janúar virdist byrja sérstaklega hægt, thad gengur ekkert né rekur hér á bæ. Nema ad ég er búin ad semja um thad vid prófessorinn ad fara í gegnum öll verkefni mín med honum thannig ad vid getum fundid út hvad mig "vantar uppá", thannig ad ég geti klárad sem fyrst.
Thannig ad: ég lifi kuldann af og allt er á uppleid.