Eins og rjúpan
Ég er hér ennþá og rembist eins og svo margar rjúpur við staurinn /-ana. Ég virðist hafa dottið út í eina viku, hef sofið alveg svakalega (allavega tíu tíma hverja nótt), veturinn virðist vera að ná taki á mér. Er núna að reyna að koma mér uppúr letikastinu, gengur í rykkjum.
Eins og mér finnst verkefnið okkar frá Blumengasse vera yndislegt og gott verkefni, þá veit ég ekkert þunglyndislegra en að vinna alla nákvæmnisvinnuna sem liggur í að gera verkefnið skilahæft. Stundum vildi maður óska sér að engum hefði dottið í hug að vinna teikningar á tölvu. Í gamla daga var þetta svo einfalt, maður tók bara blað og góðan penna og krotaði eitt stykki verkefni á það. Búið mál. Með tölvunum er maður innlimaður inn í heim tölvugrafíkarinnar, allt á að vera svo fullkomið vegna þess að einhver sagði að það væri svo auðvelt: já, maður ýtir reyndar á einhverja takka en hins vegar er það tímafrekara en að taka sér trélit í hönd og alls ekki eins einfalt og af er látið.
En jæja. Ef ég geri þetta í tölvunni er ég blessunarlega laus við að borga mörgþúsund krónur fyrir að prenta draslið út því við (ég og kennarinn) ákváðum að hafa það á "beamernum" í þetta skiptið. Aaah, léttir allavega á veskinu.
Bernhard fékk tímabundna vinnu við tölvur (grafík, ég er að segja það; hún ríkir yfir heiminum!), sem betur fer því þá hef ég meiri frið hérna heima í næstu viku til að klára verkefnið. Og jú, líka betra fyrir budduna, svo ekki sé minnst á skapið.
En hvað ég vildi óska þess að ég væri í frumskóginum með Hirti núna. Þessi slydda er að æra mig.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli