þriðjudagur, janúar 20, 2004

Svefninn

Nei, þreytukastið er ekki liðið hjá. Það mætti halda að ég væri löggst í hýði, sef eins og skógarbjörn, já eða alvöru prinsessa og prinsinn reynir ekki einu sinni að vekja mig... Nema stundum. Það er greinilega ósköp ljúft að sofa af sér vetrarmorgnana (stórskrýtið að maður kalli þetta morgna þessar gráu verur sem kíkja inn um gluggann með skuggalega óró í augum), kannski langt fram á dag og halda svo að manni takist að vinna að einhverju bráðsnjöllu verkefni langt fram á kvöld. En nei, svefnlöngunin kemur upp aftur um kvöldmatarleitið og ágerist svo með hverju strikinu sem maður vinnur á tölvuna að á endanum lætur maður undan. Yfirleitt miklu fyrr en maður hafði ætlað.

Nújá, og svo tókst mér að stúta einum fyrirlestrinum í morgun sem ég svo blessunarlega ekki fann nægan tíma til að lesa fyrir. Þegar að því kom að ég átti að ræða um efni greinanna mundi ég að sjálfsögðu mest allt sem ég hafði lesið... en hins vegar á þann hátt sem ég mundi það! Og þegar prófessorinn svo fékk orðið á eftir mér þurfti ég að éta flest allt ofan í mig sem ég hafði sagt... Það var greinilega ýmislegt sem ég hafði ekki lesið á milli línanna eða kannski er ég bara alls ekki nógu góð í ensku eftir allt. Ég hafði misskilið hinar global borgir gjörsamlega. Gúlp!

Og þessi ærandi hræðsla kemur upp: er ég svona vitlaus?! Sem betur fer voru greinilega fleiri sem höfðu átt erfitt með að skilja pointið í greinunum. Þannig að ef ég er SVONA vitlaus, þá eru margir aðrir það líka. Guðisélof.

Svona þess utan er það að frétta að við Juliane ætlum að halda upp á afmælin okkar (51 árs afmæli samanlagt) á Valentínusarkvöld. Svo ef einhvers verður freistað í þessum töluðu orðum: skellið ykkur til Köben! Þetta verður það albesta partí sem þið hafið komist í í áraraðir. Ég er nefnilega að íhuga að gera sangríuna sem sló svo ærlega í gegn í innflutningspartíi okkar frönsku vinkvennanna í Lyon 99. En þið munið líklega ekki eftir því. Þannig að látið ykkur ekki vanta! :-D

Engin ummæli: