laugardagur, desember 13, 2003

Síðasta vikan í Vín

Þið trúið því ekki: ég er á förum frá Vín. Einhvern veginn er þetta hálfótrúlegt, ég skil ekki hvernig tíminn getur liðið svona hratt. Í gær þegar ég fór úr vinnunni lá mér við gráti, ég trúi því varla að á mánudaginn sé síðasti dagurinn minn í vinnunni.

Mér líkar svo vel að vinna hjá þessu fólki að það er með eindæmum (verð ég ekki alltaf súr á síðustu vikunni og hata liðið út af lífinu?: nei, hér er ekki svo!). Höfuðpaurinn og ég erum orðnir svo góðir vinir eftir allt baslið. Bernhard varð eitthvað hálf asnalegur þegar ég fékk sms frá honum í morgun (hafði fengið það seint í gærkveldi, en var náttúrlega sofandi þá), en ég held að hann sjái mig núna eins og vinnufélaga, ekki bara hvern sem er, heldur vinnufélaga sem maður bæði getur stólað á og deilt verkefninu gjörsamlega með. Þið sem eruð í mússíkinni getið kannski ímyndað ykkur það samband sem verður á milli fólks sem vinnur svo náið saman, og sérstaklega ef samstarfið er erfitt en gengur samt vel: það er eins og verkefnið eigi okkur, við í rauninni ekki það. Og í gegnum verkefnið verðum við svo náin, það er eins og við séum hluti af þessu húsi, við lifum fyrir það, óskum okkur vissrar framtíðar fyrir það. Allavega, hann er frábær og ég á eftir að sakna hans. Líka hvernig hann er súr á mánudögum og aðeins betri á þriðjudögum og þegar hann kemur með hugmyndir sem hann faxaði að heiman klukkan hálf tólf á fimmtudagskvöldi.

Á morgun er kökubakstur hjá Noru gömlu, ásamt messu í fyrramálið með "Wiener Sängerknaben", ég varð að óska mér að fara á tónleika með þeim fyrst ég er hér í Vín, annað var ekki hægt!

Jólakortalistinn bíður. Ekki vera súr ef ég gleymi einhverjum! Og í guðanna bænum, sendið mér heimilisföngin ykkar ef ykkur langar í póstkort frá Vín: nú er síðasta útkall!!!

Engin ummæli: