laugardagur, nóvember 29, 2003

Laugardagur til lukku

Engin þoka í dag. Héðan sem ég sit við tölvuna sé ég Gloríettuna svo skýrt að ég get talið túristana sem ganga þar um: u.þ.b. þrjátíu manns.

Bernhard sefur inni í rúmi: maðurinn sem hefur varla farið í vinnuna alla vikuna vegna verkefnaleysis. Hann sefur værum blundi og ég er búin að margbrjóta loforðið um að vekja hann eftir hálftíma. Ég held að það sé of seint núna.

Flo /meðbúandinn er kominn með hjásvæfu. Hann mætir hér þriðja hvern dag og fer í sturtu og skiptir um föt og líður um eins og ballerína. Eða réttara sagt svífur um. Glottandi og horfir dreyminn út í loftið. Je minn, það þarf ekki mikið til að gleðja karlmanninn.
Svona uppá slorið get ég sagt ykkur að stúlkan sem hann sefur hjá er sveitastelpa héðan að norðan, talar með ljótum hreim, hálfljóshærð og með frunsu. Lyktar mjög illa (svitalykt plús kæfandi fcuk-ilmur (þessi með appelsínulyktinni)), við höfum þurft að lofta íbúðina algjörlega út síðustu skipti sem hún var hér.
Það góða við þetta er: maðurinn er glaður og við höfum íbúðina fyrir okkur. Júbbí!

Þess utan hef ég fengið martraðir síðustu nætur út af Blumengasse verkefninu. Í nótt stóð ég í tröppunum (ótrúlegt hversu vel maður getur ímyndað sér óbyggt hús) og þær voru að hrynja. Auk þess hafði höfuðpaurinn gert hótanir sínar um græna litinn í stigaganginum að veruleika. Hryllilegt. Seinna í draumnum var ég komin upp í þakíbúðina og það var einhvern veginn ekki alveg að gera sig að glerið gengur frá lofti og niður til u.þ.b. 70 cm hás veggs. Hvernig eigum við að setja hurðina út á svalir? Þetta er svakalega flókið. Svo ekki sé minnst á vandræðin sem við erum í útaf gegnumgangandi glervegg "í gegnum" svífandi þakverönd... Jæja, ég ætla ekki að flækja líf mitt með vangaveltum um konstrúktív vandamál lengur. Svefninn sér um það.

Engin ummæli: