Þokuborgin ógurlega
Hvít þoka umlukti borgina í dag. Það var ómögulegt að sjá til Gloríettunnar, við vorum sem týnd í götunni okkar. Við hefðum alveg eins getað búið í litlum bæ uppi í sveit, svo lítið af borginni sá ég út um gluggann.
Þegar við komum út á götu (eftir að hafa nauðað í Bernhardi í mjög langan tíma vegna þess að ég vildi hafa einhvern að tala við í göngutúrnum), kom í ljós að borgin lá þarna í þokunni, jafn sótug og vot og hún á að sér að vera á vetrardögum.
Göngutúrinn langi varð í Prater, langa garðinum niðri við Dóná. Þar er ekki meira né minna en fimm kílómetra höfuðstígur, sem við spásséruðum að enda. Stígurinn var einstaklega fallegur í þokunni, það var eins og að ganga að enda veraldar, því við sáum aldrei fyrir endann á honum. Flest kastaníutréin hafa misst öll laufin núna, þau standa dökk, nakin og næstum því draugaleg í þokunni.
Ég er byrjuð að lesa Banana Yoshimoto: N.P á þýsku. Það gengur ótrúlega vel, þökk sé hreinleika japansk skrifmáls (held ég), þótt margt tapist líklega í þýðingunni. Mig langaði að lesa eitthvað og ákvað að lesa á þýsku í staðinn fyrir að taka bók á ensku. Yoshimoto skrifar seðjandi bækur, svo ótrúlega flóknar, spennandi en samt svo, já hvað get ég sagt: hreinar.
Ég kemst ekkert áfram með verkefnið fyrir skólann, ég VIL ekki vinna allar helgar þegar ég er búin að vinna til klukkan sex eða sjö alla vikuna. Er það ekki skiljanlegt? En ég verð að gera verkefnið og það tekst nú allra líklegast, þ.e.a.s. ef ég er dugleg. :-/
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli