fimmtudagur, maí 06, 2004

Jamm (or Twoandahalf Week to the End of the World),

krítíkin á mánudag gekk svona líka hryllilega vel. Þar af leiðandi er ég ánægð (og um leið þreytt), en get ekki ímyndað mér að neitt geti farið svo illilega úrskeiðis á þessum tíma sem eftir er, að ég fái skell í lok maí. Maður á auðvitað aldrei að "taka neitt fyrir gefið", en ég þarf sem sagt að skíta mjög mikið á mig ef mér á að takast að klúðra þessu.

Upp úr þessari velgengni fæst reyndar ekkert nema klúður. Ég fæ það á tilfinninguna að ein af mínum ágætu vinkonum í skólanum sé orðin eitthvað hálf pirruð á því að ég fái bros út í eitt frá þessum kennurum á meðan hún þrælkar sér út án þess að fá neitt að launum. Enda skil ég það svo sem, en hvers vegna á að refsa mér fyrir það? Þetta kemur mjög einkennilega fram; hún er nefnilega farin að dissa mig svona í laumi, sérstaklega fyrir framan annað fólk. Sumir myndu spyrja hvort þetta væri alvöru vinkona, en ég tek þessu ekki svo alvarlega, held að þetta beri meira vott um hversu óánægð hún er í skólanum og með sjálfa sig. En hins vegar er því ekki að neita að mér leiðist þetta mjög mikið.

Annars er einkennilegt hversu hratt tíminn líður og óðfluga mætir sumarið á staðinn og mér finnst þessi magi alltaf taka meira og meira pláss. Þess utan varð mér litið í spegil áðan og sá sjálfa mig í prófíl: ég fór að skellihlæja. Ég líkist offitusjúklingi! (ótrúlegt að mér finnist það fyndið, en jæja)

Þess utan er LFBbjóða mér vinnu frá haustinu, þetta eru um 3ja tíma vinna á viku og ég þyrfti að byrja í október og vinna eitthvað aðeins núna í sumar. Mér líst nú reyndar ágætlega á þetta, því stelpurnar sem ég myndi vinna með eru svo skemmtilegar og þar að auki dytti ég ekki alveg út úr skólanum á meðan. Þær hafa líka báðar líst því yfir að ekkert mál sé að taka með sér ungabarn á fundina fyrstu mánuðina, þannig að hver veit nema ég láti slag standa?

Nóg um hótanir í bili.

Engin ummæli: