miðvikudagur, október 29, 2003

Hjálp!
Ég er í stresskasti dauðans og sé fram á að þetta verði verra með hverjum deginum þar til á mánudag. Er ekki einhver sem getur komið og verið matselja hjá okkur þangað til?
Það myndi bjarga mér alveg. Takk fyrir, takk.

sunnudagur, október 26, 2003

Þjóðhátíð

Jú, þið eruð að lesa rétt: það er þjóðhátíðardagur Austurríkismanna í dag. Ég byrjaði daginn á því að óska ástinni minni til hamingju með daginn og eins blá og ég nú er gat ég ekki annað en spurt með barnslegri tilhlökkun: hvenær verða flugeldarnir?! "Flugeldar?! Hvað meinarðu?" var svarað hryssingslega. Það er sem sagt enginn quatorze juillet hérna eins og ég í einfeldni minni vonaði. Ókei; næst var spurt: "En hvað með hátíðarhöldin? Lúðrasveitina, þú veist (hér tók ég byrjun Öxar við ánna í trompetútgáfunni (með vörunum, að sjálfsögðu))?" En nei. Allt kom fyrir ekki. Engin lúðrasveit. Hátíðarhöld? Kannski.

Þar á eftir var farið inn á síðu hersins á netinu og þar eru tilkynningar um uppátæki niðri í bæ í dag. "Hvað, herinn?" varð mér á að æpa. (Hið margumtalaða íslandúrnatóherinnburt ómaði í huga mér) "Já, herinn", var svarið, "er það ekki það sem þjóðhátíðardagurinn snýst um? Eitthvað militær-shit?" Ég gapti.

Og ég nuðaði í honum og þóttist ætla að fara ein og ég veit ekki hvað, þar til maðurinn lofaði að taka mig, hátíðarsjúka manneskjuna niðrí bæ að sjá uppistand hersins við Burg. Og svo var þrammað af stað. Annað eins uppátæki hef ég aldrei verið vitni að. Við Burg var svo mikið að fólki að maður varð að synda til að komast eitthvað áfram. Og seisei nei, það voru engir helvítis þjóðbúningar, engin póetísk fjallkona að stappa stálinu í fólkið, engin máluð barnaandlit, enginn rjómaís með dýfu, engir smáfánar viftandi í vitum manns.
Það var bara herinn. Allsstaðar.

Geðveik, nýhönnuð/ smíðuð herþota (ég huxaði með mér: ætla þeir virkilega að drepa einhvern með svo fallegu vopni? og þar á eftir: jeminn, þetta er virkilega eins og tekið út úr japanskri science-fiction teiknimynd), þyrlur, trukkar, byssur og vopnaðir menn svo langt sem augað eygði. Þetta var eins og draumur af sjómannadegi, þetta voru bara engir sjómenn heldur hermenn, "licenced to kill". Eftir hringinn datt mér í hug að það yrði örugglega gert sprengjutilræði á svæðið, ég varð allt í einu mjög móðursjúk og sá sjálfsmorðssprengju í hverri einustu feitlagnri manneskju sem mætti okkur í luralegri úlpu. Og þar með var þjóðhátíðinni lokið fyrir mér.

Í dagblaðinu í dag "Der Standard" stendur að Austurríkismenn hafi orðið meiri þjóðerniskennd. Þeir lýsi ekki lengur landi sínu sem hálfgerðum undirhatti Þýskalands eins og raunin var eftir stríðið, heldur sjái að það sé munur á þeim og þjóðverjum og unga fólkið vilji jafnvel leggja áherslu á það. Hvers vegna er þá þjóðhátíðin sniðgengin af öllum nema hernum? Ég skil ekki af hverju börnin þeirra hlaupa ekki um með fána og syngja þjóðernissöngva. Þetta er jú bara einu sinni á ári. Og þýðir í rauninni ekkert nema: ég og þú heyrum til saman og verðum að passa uppá hvern annan. Það er einmitt þetta sem "þjóðerni" þýðir. Ekki að fara niðrí bæ og skoða þyrlur og horfa á karla í felubúningum skjóta í sekki.

Í dag var í fyrsta skipti sem ég hljóp hér í Vín. Ég hljóp niður í Schönbrunn, upp á hæðina (labbaði reyndar þann spotta, enda verður maður að hafa ansi mikið þol til að hlaupa upp aðra eins hæð), framhjá Gloríettunni, niður hæðina aftur, út úr garðinum, yfir ánna, inn í annan garð og þar í gegn heim. Óskið mér til hamingju.

Og þótt það sé þjóðhátíð þá slökkva þeir samt á Gloríettunni eftir klukkan sex til að spara rafmagnið! Þvílík þjóð!

föstudagur, október 24, 2003

Fyrsta fönnin féll í gærkvöldi. Það var orðið dimmt þegar ég grunlaus gekk út úr metróstöðinni á leið út á sporvagnstoppistöð. Viti menn, slyddan hrundi niður úr himninum, illa lýst gatan var blaut og flokkur fólks húkti í sporvagnsskýlinu. Ekki leið á löngu þar til ég var orðin blaut í fæturna, enda í lágbotna Bianco skónum.

Hvenær verða draumarnir að veruleika? Verst er þegar maður enga drauma hefur, heldur flýtur áfram í einhverri óskiljanlegri sælu eins og ég geri í augnablikinu. Gleymi öllu um skóla og aðra ókosti lífsins. Er bara og hángi í tómarúmi á milli þessa lífs og hins. Pása.

Ég er stóránægð í vinnunni. Ég held ég sé búin að fá yfirmann minn af hugmyndinni um að mála húsið röndótt. Hvernig í ósköpunum á maður að finna liti sem eiga eftir að líta vel út eftir tíu ár? Það er nefnilega akkúrat það verkefni sem hann setti í hendurnar á MÉR! Hann vissi bara ekki að mér finnst flestir litir fallegir og flestir litir fallegir saman, þeir gefa bara mismunandi tilfinningu. Málið er að ef ég á að finna fimm liti sem "víbrera" saman, tekur það að minnsta kosti nokkra mánuði fyrir mig, allavega ef ég á að vera viss um að þeir geti verið fallegir eftir tíu ár líka, hvað þá eftir fimmtíu ár! Þá er málið að finna eitthvað sem er jafn tímalaust og... já t.d. skotapilsmunstur!!! Glætan. Ég á að vera búin á þriðjudag.

Og já. Hvernig fékk ég yfirmanninn næstum því af hugmyndinni með rendurnar? Ég kom með eitthvað ennþá fallegra: tveir þungir, dökkir klumpar mætast. Annar þeirra er dökkgrár, hinn er ívið ljósari. Þeir stangast á en renna samt saman þar sem þeir leiða báðir inn í garðinn fyrir innan. Í skorinni á milli þeirra (stigaganginum) glittir á appelsínugult innviðið, gluggakarmarnir eru í heitum litum og litað gler er sett fyrir framan frönsku altönin sem líka eru í rauðleitum litum. Þetta er eins og hraunið þar sem glittir í kvikuna undir.

Þið ekki-arkítektar: haldiði ekki að þið mynduð vilja búa í svona húsi?
Bwadr, alltaf sama faglega gasið.

Eftir að ég hætti við Dónaeyjuna (Sorrí þið Dóna-fans, hún var of stór!) hef ég ekki drullað mér til að setja myndirnar af mínum lita bletti (þar sem ég ætla að gera mini-verkefnið mitt) í skjal og senda til prófessorsins. En nú fer að koma að því. Við Bernhard erum jú líka að gera Osló að betri stað að lifa, ja svona með annari hendinni, þannig að ég sé nú ekki að ég sé eitthvað slórandi hérna. En það er jú alltaf best að hafa mörg verkefni í gangi, þá leiðist manni minna á milli kaffihúsaferðanna!

Ég hef það annars í huga að gera graskerssúpu í hádegismat á morgun, þannig að ef einhver á leið um þessi stræti, bjallið í mig og þið eruð velkomin í mat! :-D

miðvikudagur, október 22, 2003

Ný vinna

Fyrsta heila vinnudegi mínum er lokið.
Ég er að drepast í bakinu. Ég sit á versta stólnum á kontorinu, það er samt enginn kollur, bara ekki hannaður til að sitja við tölvu á honum. Ég er þreytt. Ég vil bara fá frí aftur, ekkert annað!
Gefst samt ekki upp. Fyrsti dagurinn er jú alltaf erfiðastur.
Engin stóruppgötvun á nýjum vinnustað: þetta er greinilega alltaf sama rútínan bara. Ég á að lappa uppá projekt fyrir 9 íbúðir. Verkefnið er komið það langt að búið er að takmarka allan fjandann, ekkert sérstaklega kreatívt við það. En samt er hægt að laga það mikið fyrir það. Ég á að ákveða hvernig húsið á að líta út frá götunni og frá garðinum séð (húshliðar), plús ákveða hvernig innkeyrslan er (það verður hægt að parkera bílum inni í garðinum). Það er búið að ákveða gjörsamlega hvernig íbúðirnar verða, nema vantar að ákveða hvernig svalirnar eru. Það á að byrja að byggja næsta vor, þannig að ég fæ líklega að ráða hvernig húsið lítur út áður en það verður sett í framkvæmd!
Það er einhver spenna hérna á milli sambúans og Bernhards, þeir talast ekki við nema í einhverjum pirringi. Held samt að það komi mér ekki við, það er bara erfitt að búa með vinum sínum greinilega.

mánudagur, október 20, 2003

Jesús minn!
Sambúinn var búinn ad elda thegar vid komum heim... og bída eftir okkur med matinn í hálftíma! Hvad er ad gerast?
Ég er ekki alveg ad fatta austurríska karlmenn.