Veikindi og síðbúnar fréttir
Ég hata að vera veik! Ætli það sé ekki svipað með flesta? Þegar maður er veikur hugsar maður nokkra daga til baka og skilur ekki af hverju í ósköpunum maður nýtur þess ekki hvern einasta dag að vera frískur! Það er svo miklu, miklu auðveldara!
Eftir vægast sagt vellukkað Valentínusarpartí hjá okkur Juliane held ég mig frá skemmtanalífinu í nokkrar vikur. Ekki bara var veislan vægt áfall fyrir budduna, heldur var ég þreytt í marga daga á eftir, dröslaðist náföl og dofin í skólann og enda svo vikuna með þessu líka svakalega kvefkasti.
En partíið: kannski milli fimmtíu og sextíu manns, allt nánir vinir að sjálfsögðu. Einkennilegt hversu fljótur maður er að fylla gestalistann, þótt að aðeins "hinir nánustu" hafi verið á honum. Og ég gerði hina frægu sangríu sem féll ekki verr í kramið hjá Dönunum en Frökkunum í síðasta partíi sem ég hélt (sem var einmitt fyrir fjórum árum - believe it or not). Það flæddi allt í þessari sangríu fyrstu tímana og eins naívt og fólk nú er héldu flestir að þetta væri óáfengt helvíti. En viti menn, tveimur tímum síðar var rommið farið að segja til sín og þar með hinn óumflýjanlegi þorsti eftir meira áfengi. Guði sé lof hafði Bernhard ekki tekið í mál að kaupa minna en hundrað öl, sem svo entust eitthvað fram á nótt. Ég sjálf var bláedrú allt kvöldið, drakk ekki meira en eitt glas af sangríunni og var þess vegna orðin hálf sigin um ellefu leitið. Það varð ekki úr heimferð fyrr en klukkan þrjú, þegar mæjónesan var orðin gul og Juliane svo sannarlega löggst í bleyti!!!
Og já, skólinn. Það er erfitt að segja til um tilfinningar mínar í garð skólans í augnablikinu. Fyrstu tvær vikurnar voru fylltar af hópvinnu með fólki sem allt var svo einkennilega eigingjarnt, nennti ekkert að vinna með öðrum og var heilu og hálfu dagana ekki með vegna þess að þau þurftu að fara í vinnuna. Þannig að það endaði með að ég ásamt Helene blessuninni þurftum að redda þessu í einum hvelli síðasta daginn, eftir að hafa notað tvær vikur í að rífast og þræta um allt og ekkert, helmingurinn af hópnum ekki til staðar nema annað hvort skipti. En á mánudaginn var prógrammið okkar svo tekið fyrir ásamt prógrömmum hinna hópanna og eftir allt streðið var gott að heyra að kennurunum fannst nú mest til okkar prógrams koma. Allt er hey í harðindum og ég held að þessi athugasemd kennaranna hafi hjálpað mér að sjá hið jákvæða í skólanum aftur.
Verkefnið gengur út á að teikna grunnskóla (bygginguna). Ég ræddi svo við kennarann minn á fimmtudaginn og henni fannst (eftir að hafa séð gömul verkefni) að ég ætti að einbeita mér að tæknilegum atriðum í byggingunni, þ.e.a.s. fara alveg niður í smáatriði til að kunna það. Við stefnum á að hafa þetta verkefni sem "indstillingsopgave", þ.e.a.s. næstsíðasta verkefnið mitt í skólanum. Það er dálítið stressandi, en ég held að ég sé að verða tilbúin til að skilja við skólann.
Ég dreymi um að liggja á strönd einhvers staðar við Rauðahafið, eða já, vera á Jamaica eins og móðir mín og systir. Einhvers staðar þar sem bara er gott veður allan daginn og maður þarf ekki að vefja sig inn í teppi ef maður er veikur (ef maður verður yfirleitt veikur á þannig stað)!
Ég get glatt sjálfa mig við það að ég keypti efni í langermaða peysu í gær og var kominn tími til, þar sem nánast allar flíkur mínar enda við olnboga. Ég hef hins vegar legið í svo miklu móki að ég er ekki einu sinni búin að gera sniðið! En þetta er allt á leiðinni.
Á þriðjudag er ég að fara í sónar í fyrsta skipti, þetta er það sem er kallað á dönsku "nakkefoldskanning" sem er til að athuga hvort fóstrið sé með Down Syndrome. Ég er persónulega á móti þessari "risikovurdering", en Bernhard vill endilega fara og ef það getur róað hann eitthvað er ég til í það.
Og ps. þið sem ekki vissuð það: ég er ólétt! Buhu!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli