Enn með lífsmarki
Á skrifborðinu mínu stækkar hrúgan af ósvöruðum bréfum hins opinbera; læknum, skatti og kommúnu. Þetta eitt ber þess vott að aðrir og mikilvægari hlutir íþyngja mér þessa dagana. Annars er allt við það sama í íbúðinni. Nýþvegið gólf, allir diskar þvegnir í eldhúsinu og nýbúið að þrífa kalk síðustu mánaða af baðherbergisvaskinum. Það verður hér að viðurkennast að gott ástand íbúðarinnar er að vísu ástkærum manni að þakka. Ekki hef ég tíma til slíks!
En því er heldur ekki að neita að maðurinn heldur ekki hefur tíma til slíks. Einhver verður einfaldlega að gera þetta! Og þegar hann á í stríði við einhverja galdraformúlu í CMS prógrammeringunni (fyrir þá sem vita eitthvað um internetið og grunnfræði þess) er jú alltaf ágætt að taka sér frí og þvo aðeins upp. Já, eða þrífa baðherbergið. Það er feikna þægilegt, já, ef ekki nauðsynlegt að eiga heimavinnandi mann.
Það er að segja EF hann stökkbreytist ekki snögglega í snyrtipinna sem eyðir helmingi lífs síns í eldhúsinu og pirrast á mér þegar ég "gleymi" að henda mjólkurfernunni eftir hennar hinstu ferð út úr ísskápnum. Það er nefnilega ein aðal hættan við heimavinnandi fólk, það verður svo smámunasamt. Heimilið verður heilagt. Ég er að segja það, við VERÐUM að spara fyrir skúffuuppþvottavélinni frægu.
En já, hér er mikið að gera, þökk sé hinni sívælandi fröken fix, kennaranum mínum. Hún svoleiðis keyrir mig áfram eins og keppnishest. Ég er löngu komin fram úr félögum mínum í bekknum en nei: þetta á að vera fullkomið. Hún veit jafn vel og ég að til þess að ég geti fengið verkefnið samþykkt sem "næstsíðasta", VERÐ ég einfaldlega að sýna fram á hvað ég hef fram að færa. Það hræðir mig pínulítið að ég er komin með byggingu í hendurnar sem ég veit ekki hvað mér finnst um eða af hverju hún varð svona, á meðan hinir í bekknum basla enn með einhver skemu!
Ég hitti í dag vinkonu sem mér líkaði mjög vel við fyrir tveimur árum. Eitthvað hefur breyst vegna þess að á einu og hálfu ári hef ég farið frá því að kalla hana eina af bestu vinkonum mínum til að hata hana gjörsamlega og núna til að bara vera þreytt af henni. Hún er einmitt svona stelpa sem heldur alltaf að hún hafi rétt fyrir sér og viti nákvæmlega hvað er best fyrir mig. T.d. byrjaði hún í dag að hneykslast á mér fyrir að fara ekki reglulega út að hlaupa. Eða að synda. Aðalatriðið að það sé á föstum tímum hverja viku.
Ekki það að hún hafi ekki rétt fyrir sér. Hún hefur jú fullkomlega rétt fyrir sér! En hins vegar getur maður ekki setið og sagt að aðrir eigi að gera þetta og hitt án þess að vita hvað er í gangi hjá manneskjunni yfirleitt! Það að maður er í skólanum alla daga frá níu til sex og sofi restina af kvöldinu vegna þess að maður bara ekki GETUR lyft litlafingri eftir slíkan dag. Eða að sitja alla helgina og vinna á tölvuna vegna þess að það einfaldlega eru ekki nógu margir tímar í vikunni! Hvar á ég að finna tíma eða yfirleitt orku til þess að sprikla þrisvar í viku? Þá verð ég í augnablikinu að láta tuttugu mínútna hjólatúrinn í skólann og kannski einn góðan göngutúr um kvöldið duga í bili. Ég sé ekki af hverju allir eiga að vera svona orkufullir og ótrúlega fitt endalaust. Stundum eru bara aðrir hlutir í lífinu sem skipta meira máli. Eins og ég segi: í bili. Vonandi hefur maður tíma til þess einhvern tíma seinna að vera fullkominn og fara í gymmið annan hvern dag. Og baka bollur á sunnudögum. Og vera í hárri stöðu í fyrirtækinu. Og allt hitt sem maður á að gera ef maður ætlar að verða fullkominn eins og hinir.
Kannski er vandamálið það að hún í raun og veru er hundóánægð með sjálfa sig, og eins og oft gerist, er auðveldara að spegla sig í mér og segja við mig að ég eigi að halda mér fitt og ég eigi að gera allt þetta sem á að gera. Því í rauninni er ég ánægðari með sjálfa mig en hún er; þótt ég sé tíu kílóum þyngri og fari kannski ekki jafn oft út að hlaupa og hún gerir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli