mánudagur, ágúst 23, 2004

Nennessekki

Er orðin þreytt á þessu. Nenni ekki að blogga, nenni ekki að hjóla (gefst upp eftir korterið), nenni ekki að liggja í sólinni. Nenni ekki að hafa þetta kríli inni í mér lengur.
Er hægt að fá aðstoð hérna? Hvernig væri ef vísindamenn heimsins tækju sig saman og gerðu ekstern legpoka sem hægt væri að hafa á bakinu? Það kæmi sér vel að notum svona þegar líður á seinni helming meðgöngu og maður bara nennir ekki að standa í þessu lengur.
Er annars búin að vera svakalega dugleg og laga kjólinn hennar Juliane (sem by the way varð 10. á ólympíuleikunum - svaka svekkt (væri ég svekkt yfir því að vera með þeim tíu bestu í heiminum?!)), fór í bakaríið í morgun (þ.e.a.s. þegar ég vaknaði = frekar seint) og þvoði gólfið í stofunni (sem er ekki nema klukkutíma prógram (helvítis trégólf)).
Er svo byrjuð aftur í vinnunni og virðist vera eitthvað aðeins meira en þrír tímar á viku, allavega núna á meðan við erum að skrúfa hlutina saman. Hins vegar lofar góðu, og ég mæli með kúrsinum fyrir þá sem hafa áhuga (og eru í Kaupmannahöfn þetta skólaárið).
Og - wish me luck. Það erfiðasta er ennþá eftir...

föstudagur, júlí 23, 2004

Fundinn!

Ég fékk Bernhard með mér í leitina og þar sem hann er nú skeptískur maður, var ekki sama hvað var valið. Við fundum einn mjög stabílann á góðu verði í Dragör - þekkt með réttnefni sem ðí end off ðe vörld, en OK. Einu atriðinu minna að hugsa um, og það er ánægjulegt.
Á sunnudaginn verður svo haldið upp á þrítugsafmæli mannsins, þar er að sjálfsögðu öllum velkomið að mæta sem vettlingi geta haldið - og sem eru í Kaupmannahöfn þann daginn.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Barnavagnaleit

Ekki er ein leitin á enda fyrr en sú næsta hefst. Er ég í desperat barnavagnaleit eftir að við mamma römbuðum inn í barnavagnabúð til að tékka á prísunum. Ekki er saga frá því að segja að allflestir barnavagnar eru seldir á okurprís, mér til mikils hryllings. Hef ég því hafið mikla leit á veraldarvefnum að notuðum barnavagni... Og þó. Sá auglýsingu á Öresundkollegíinu þar sem barnavagn var til sölu fyrir all minni pening. Hann ætlum við að kíkja á í kvöld. Ef einhver kannast við hljómsveitina Enú, virðist svo vera sem þessi Haraldur sem á barnavagninn (enn...) spili á hljómborð í þeirri sveit. Það er meiri vitleysan sem hægt er að fá út úr þessu neti ef maður leggur það á sig að goooogla.
Annars er lítið að frétta nema að sumarið lætur eitthvað á sér standa hér í bæ. Helst vildi ég vera í sumarblíðunni í kexverksmiðjunni góðu.

mánudagur, júní 21, 2004

Hrakfarir

Ég er ekki fyrr farin að losna við marbletti hjólaslyssins en að Bernhard tekur sig til og þrykkir dansk-enskri orðabók í augað á mér! Hvað er málið?

miðvikudagur, júní 09, 2004

Hjólaleitin mikla

Ég prófaði hjól áðan sem mér leist svakalega vel á (nema að hnakkurinn var of neðarlega, en það er annað mál). Ég fór sem sagt í smátúr með hjólið til að tékka á hvernig mér fyndist að hjóla á því. Það gekk eins og að prófa léttan, japanskan bíl þegar maður er vanur að keyra á volvónum. Ansi óstöðugt á köflum, því hjólið er jú úr áli og þess vegna sérstaklega létt. Allir gírar einstaklega auðveldir í notkun og þrælþægilegt/ auðvelt að hjóla á því. Það má þess geta til gamans að þetta er karlahjól, því ég nenni ekki sigla um á einhverju dömuhjóli (humpf!).
En fyrir þá sem ekki þekkja til Anette (gamla hjólsins), verður að segjast að það hjól er með eina handbremsu sem ekki virkar sérstaklega vel, þar sem hún er gömul og stirð, og hefur aldrei verið góð (sérstaklega ekki eftir að hún datt af í síðustu viku). En þetta nýja hjól sem ég nú er að hugsa um að kaupa er með nýtísku bremsum, sem að sjálfsögðu eru þrælgóðar.
Ég fór semsagt lítinn hring á hjólinu, var komin á dálitla ferð og ætlaði að hægja á mér: viti menn, bremsurnar VIRKA! Ég kollsteyptist af hjólinu á miklum hraða, sem betur fer í friðsælli götu. Og er svona líka bólgin á höndum og báðum lærum! Sem betur fer virðist líkaminn vera með "höfuðið" í lagi, mér tókst að fá högg á allt nema magann, og jú hausinn. Skidesmart.
Tókst að sjálfsögðu að eyðileggja bæði bjöllu og "gírstjórnina", mjög pínlegt, en maðurinn í búðinni var hinn vinsamlegasti, sagði að hann hefði átt að vara mig við! Og ég þurfti ekki einu sinni að borga fyrir skemmdirnar.
Bernhard hins vegar tók þetta netta kastið, hljóp út í apótek að sækja spritt og plástra og bjó svo um bágtið/-in.
Þetta var sjúkrasagan í dag.