þriðjudagur, október 19, 2004

Hvað á barnið að heita? (QuiZ)

Þetta er stóra spurningin. Við stöndum í stappi við stjórnvöld í landinu græna um nafnalög og annað góðgæti. Hér hefur maður keypt sér gottgilt íslenskt fornafn sem eftirnafn, og þýðir þá að sá maður og fjölskylda hans hefur einkarétt á því nafni. Ég held því fram að ég sé hérna tímabundið í námi (enda komin með meira en nóg af stjórnmálum, útlendingahati og lögum þessa lands), og þykist geta skírt son minn því nafni sem mér sýnist. Ekki eru allir sammála um það, og þess vegna stappið. Ég gæti skilið vesenið ef ég ætlaði að skíra blessað barnið Bambi (sem reyndar er löglegt, íslenskt nafn!)... En ég er sem betur fer ekki gengin af göflunum (fyrirgefðu, Bambi, ef þú lest þetta)!
Hér er að koma vetur, það er mjög einkennilegt að veturinn komi og það verði meira og meira myrkur á morgnanna en ég fer hvorki í skóla né vinnu, heldur sit heima með pelabarnið. Og er byrjuð að sauma aftur, í pásunum!

laugardagur, október 02, 2004

Allt á uppleið - pelabarn og stolt af því!

Hér er allt á uppleið eftir að það komst rútína á pelann. Nú gengur drengurinn eins og klukka, drekkur á þriggja tíma fresti og sefur á næturnar (þ.e.a.s. á milli þriggjatíma þorstans). Þar af leiðandi er ég ekki lengur jafn stressuð yfir því að barnið fái ekki nóg. Og hann lætur jú vita af því þegar ekki er nóg!
Það er erfiðara en maður heldur að vera mamma. Það auðveldasta í þessu er að ganga með barnið í þessa níu mánuði og ýta því út um rétt gat. Það erfiða byrjar um leið og barnið kemur í fang manns blautt og úfið, gargandi úr sér (og mér) allt vit.
Og það merkilega: ég þekki grát hans úr, þótt það væru fimmtíu grenjandi smábörn í herberginu, myndi ég rata á hann í blindni. The Wonders of Motherhood, hah!

laugardagur, september 25, 2004

Hann er kominn!

Til allra sem ekki vita það nú þegar: drengurinn fæddist 17. september, á afmæli föðurömmu sinnar (og félaga Jóa reyndar líka). Hann er við góða heilsu, sterkur og duglegur.
Já, maður er orðinn ríkur (svo ég kvóti konu Unnsteins - já eða Kormák afa úr Jóni Oddi & Bjarna), en hins vegar er eitt horfið úr lífi manns: svefn. Hryllilegt.
Brjóstin eru eitthvað að láta á sér standa, tekur einhvern tíma að kreista úr þessu gusurnar. Í millitíðinni er drengurinn hafður á aukanæringu á eftir hverri brjóstagjöf. Það reynir mikið á litla fjölskyldu þar sem allir eru í fyrstu prufukeyrslu. Á meðan þetta er að lagast verður að vera algjör ró á heimilinu, þess vegna engar heimsóknir enn.
Ég hlakka samt til að sjá ykkur aftur - þegar við erum tilbúin :-D

fimmtudagur, september 09, 2004

Móðursýki /hysteria

Jebb, mín er orðin móðursjúk, hvorki meira né minna. Fór upp á fæðingardeild í gær til að láta tékka á barninu, þar sem ég hafði ekki frétt til þess í sólahring, og dagana á undan hafði það ekki látið mikið í sér heyra.
Hef greinilega látið þetta LFB jobb slá mig eitthvað út af laginu, hafði verið stressuð og vitlaus allan daginn yfir asnalegum tölvuformötum og öðru því já: ekkert að barninu, að sjálfsögðu ekki. Mér finnst þetta frekar fíflalegt, að fara upp á sjúkrahús útaf öðru eins, en mér fannst þetta bara svo spúkí að ég vildi ekki vera hrædd og vitlaus lengur.
Ljósmóðurinni sem tók á móti mér fannst ég svo döpur að hún tók sig til og fékk lífssöguna upp úr mér og meira til, hún spurði um ALLT. Ég er svo kurteis að ég svaraði barasta öllu sem hún spurði mig um eftir bestu getu. Veit svo sem ekki hvað hún skrifar í skýrslurnar en henni tókst að ýta á alla gráttakkana á mér áður en hún setti á mig "hjartabeltið".
Nú vona ég bara að ég þurfi ekki að ganga í gegnum fleiri móðursýkisköst, enda er ég að hugsa um að hætta að vinna í bili og hætta að hugsa um það einu sinni. Leggjast bara upp í sófa með tærnar upp í loft og njóta þess að hafa tíma til þess. Kannski í síðasta sinn.

miðvikudagur, september 01, 2004

Fyrsti skóladagur

Var á skólasetningu í dag. Merkilegt að koma inn í salinn fullan af fólki og á sviðinu stendur óperusöngvari með allan gáng í Figaro. Mér datt næstum í hug að segja "snobbað" - síðustu þrjú skipti hefur verið annað hvort gamaldags jazz eða bigband (sem er í mínum huga næstum það sama), og núna erum við sem sagt komin í háklassíkina. Mér fannst þetta náttúrlega mjög skemmtilegt - enda tölum við hér um aríur sem allir þekkja nema að þeir hafi aldrei farið í heimsókn til ömmu, eða að amman hafi fílað rokkmússík og rás tvö: sem sagt: mjög auðmelt prógram. EN snobbað fannst mér það samt. Datt ekki annað í hug en að mér undanskildri væri svo sem einn sextándihluti nemanda spenntir fyrir óperu, og hinir væru bara að reyna að líta út fyrir að vera interesseraðir. Hér er náttúrlega staðfesting á fordómum sjálfrar mín gagnvart samnemendum mínum... Afsakið.
Sá prógram um Bush (igen, igen) í sjónvarpinu í gær, í þetta skipti ekki um græðgi karlsins heldur trú. Mjög sérkennilegt að ímynda sér vestrænt samfélag sem augljóslega samþykkir að pólitík og trú blandist saman. Hér var þá sérstaklega talað um "trúarræður" Bush, "hið illa" og hina "útvöldu þjóð" (sem reynist í þessu tilfelli ekki vera Ísrael heldur USofA). Það fyndna fannst mér svo, að það var tekið viðtal við einhvern "trúarhöfðingja/ prest??" sem sagði að það góða við stjórnmál í hinu stóra landi væri einmitt sá patriotismi sem kandidatarnir taka fyrir gefið og byggja á... Fyrirgefðu, ég hélt að patriotismi væri neikvætt orð? Eða var það kannski bara í Evrópusambandinu? En nóg um það: eru Bandaríkin í heilögu stríði við íslömsk ríki, eða hvað?
Á heimavelli er húsið að breytast í vinnustað: eftir að nágrannarnir uppi hafa nýtt síðustu þrjá mánuði til að berja eldhúsið sundur og saman aftur er náunginn skakkt fyrir neðan nú byrjaður á sínu eldhúsi/ baði, sem reyndar var gert nýtt fyrir þremur árum! Hann er nýfluttur inn, sko. Hvernig er það, er ekki hægt að notast við neitt sem var gert upp fyrir þremur árum? Það er eins og þegar maður flytji inn í nýja íbúð VERÐI maður bara að fá allt nýtt! Held að öll þessi boligprógrömm í sjónvarpinu sé að gera fólk vitlaust! Makeover here I come!