laugardagur, mars 20, 2004

Enn með lífsmarki

Á skrifborðinu mínu stækkar hrúgan af ósvöruðum bréfum hins opinbera; læknum, skatti og kommúnu. Þetta eitt ber þess vott að aðrir og mikilvægari hlutir íþyngja mér þessa dagana. Annars er allt við það sama í íbúðinni. Nýþvegið gólf, allir diskar þvegnir í eldhúsinu og nýbúið að þrífa kalk síðustu mánaða af baðherbergisvaskinum. Það verður hér að viðurkennast að gott ástand íbúðarinnar er að vísu ástkærum manni að þakka. Ekki hef ég tíma til slíks!

En því er heldur ekki að neita að maðurinn heldur ekki hefur tíma til slíks. Einhver verður einfaldlega að gera þetta! Og þegar hann á í stríði við einhverja galdraformúlu í CMS prógrammeringunni (fyrir þá sem vita eitthvað um internetið og grunnfræði þess) er jú alltaf ágætt að taka sér frí og þvo aðeins upp. Já, eða þrífa baðherbergið. Það er feikna þægilegt, já, ef ekki nauðsynlegt að eiga heimavinnandi mann.

Það er að segja EF hann stökkbreytist ekki snögglega í snyrtipinna sem eyðir helmingi lífs síns í eldhúsinu og pirrast á mér þegar ég "gleymi" að henda mjólkurfernunni eftir hennar hinstu ferð út úr ísskápnum. Það er nefnilega ein aðal hættan við heimavinnandi fólk, það verður svo smámunasamt. Heimilið verður heilagt. Ég er að segja það, við VERÐUM að spara fyrir skúffuuppþvottavélinni frægu.

En já, hér er mikið að gera, þökk sé hinni sívælandi fröken fix, kennaranum mínum. Hún svoleiðis keyrir mig áfram eins og keppnishest. Ég er löngu komin fram úr félögum mínum í bekknum en nei: þetta á að vera fullkomið. Hún veit jafn vel og ég að til þess að ég geti fengið verkefnið samþykkt sem "næstsíðasta", VERÐ ég einfaldlega að sýna fram á hvað ég hef fram að færa. Það hræðir mig pínulítið að ég er komin með byggingu í hendurnar sem ég veit ekki hvað mér finnst um eða af hverju hún varð svona, á meðan hinir í bekknum basla enn með einhver skemu!

Ég hitti í dag vinkonu sem mér líkaði mjög vel við fyrir tveimur árum. Eitthvað hefur breyst vegna þess að á einu og hálfu ári hef ég farið frá því að kalla hana eina af bestu vinkonum mínum til að hata hana gjörsamlega og núna til að bara vera þreytt af henni. Hún er einmitt svona stelpa sem heldur alltaf að hún hafi rétt fyrir sér og viti nákvæmlega hvað er best fyrir mig. T.d. byrjaði hún í dag að hneykslast á mér fyrir að fara ekki reglulega út að hlaupa. Eða að synda. Aðalatriðið að það sé á föstum tímum hverja viku.

Ekki það að hún hafi ekki rétt fyrir sér. Hún hefur jú fullkomlega rétt fyrir sér! En hins vegar getur maður ekki setið og sagt að aðrir eigi að gera þetta og hitt án þess að vita hvað er í gangi hjá manneskjunni yfirleitt! Það að maður er í skólanum alla daga frá níu til sex og sofi restina af kvöldinu vegna þess að maður bara ekki GETUR lyft litlafingri eftir slíkan dag. Eða að sitja alla helgina og vinna á tölvuna vegna þess að það einfaldlega eru ekki nógu margir tímar í vikunni! Hvar á ég að finna tíma eða yfirleitt orku til þess að sprikla þrisvar í viku? Þá verð ég í augnablikinu að láta tuttugu mínútna hjólatúrinn í skólann og kannski einn góðan göngutúr um kvöldið duga í bili. Ég sé ekki af hverju allir eiga að vera svona orkufullir og ótrúlega fitt endalaust. Stundum eru bara aðrir hlutir í lífinu sem skipta meira máli. Eins og ég segi: í bili. Vonandi hefur maður tíma til þess einhvern tíma seinna að vera fullkominn og fara í gymmið annan hvern dag. Og baka bollur á sunnudögum. Og vera í hárri stöðu í fyrirtækinu. Og allt hitt sem maður á að gera ef maður ætlar að verða fullkominn eins og hinir.

Kannski er vandamálið það að hún í raun og veru er hundóánægð með sjálfa sig, og eins og oft gerist, er auðveldara að spegla sig í mér og segja við mig að ég eigi að halda mér fitt og ég eigi að gera allt þetta sem á að gera. Því í rauninni er ég ánægðari með sjálfa mig en hún er; þótt ég sé tíu kílóum þyngri og fari kannski ekki jafn oft út að hlaupa og hún gerir.

laugardagur, febrúar 28, 2004

Snjókoma og saumavélin afmeyjuð

Það hefur verið einstaklega mikill vetur þessa vikuna á meðan ég lá í hálfmóki í sófanum og beið þess að verða frísk aftur til þess eins að fá skammir hjá kennaranum fyrir að hafa ekki gert neitt.

Ég sé að ég og þessi kennari eigum eftir að eiga margar miður skemmtilegar stundir saman. Það fyrsta sem hún sagði þegar hún sá AutoCad módelið mitt var: "Já, vandamálið er að þú vinnur á tölvu. Ef þú hefðir gert það sama á blaði, þá hefði ég kannski skilið þetta betur". Aðeins seinna, þegar ég var búin að sýna henni allt sem ég hafði gert (sem var ekki mikið, því ég var jú veik) þá segir hún: "Ég skil þetta ekki. Ég skil þetta alls ekki. Ég get bara ekki skilið hvað þú varst að hugsa!". Það er mjög einkennilegt hversu flestir kennarar í þessum blessaða skóla ekki geta skilið að maður stundum prófi sig fram með aðrar aðferðir en þau hafa notað síðustu áratugi. Sérstaklega ef manni dettur í hug að vinna með form sem ekki eru "hrein". Eins og hún sagði: "Já, þessi hringur hérna er skiljanlegur, líka þessi fígúra hérna (benti á kassann), en hitt... Öll þessi óreglulegu form! Ég get ekki ímyndað mér að þetta verði gott rými að vera í. Ég get alls ekki skilið að þú viljir vinna á þennan hátt!". Og COME ON, ég var búin að vinna að þessu í kannski nokkra klukkutíma, eftir að hafa verið veik í marga daga og DUH, ég var ekki að meina neitt af þessu alvarlega, þetta var bara eitthvað sem við gátum byrjað að tala um, þannig að ég hefði EITTHVAÐ að sýna henni! En nei, sumt fólk fattar ekki að maður getur verið abstrakt líka þótt maður vinni á tölvu, for helvede!

Saumavélin var tekin með stíl í gær. Sit nú í afrakstrinum. Bleik peysa, aðsniðin með langar ermar og aflangan, tveggja sentímetra kraga. Og saumavélin er svo auðveld í notkun og þægileg! :-D Það var fjárfesting í lagi!

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Nýjasta og einasta myndin af Kurt

sunnudagur, febrúar 22, 2004

Veikindi og síðbúnar fréttir

Ég hata að vera veik! Ætli það sé ekki svipað með flesta? Þegar maður er veikur hugsar maður nokkra daga til baka og skilur ekki af hverju í ósköpunum maður nýtur þess ekki hvern einasta dag að vera frískur! Það er svo miklu, miklu auðveldara!

Eftir vægast sagt vellukkað Valentínusarpartí hjá okkur Juliane held ég mig frá skemmtanalífinu í nokkrar vikur. Ekki bara var veislan vægt áfall fyrir budduna, heldur var ég þreytt í marga daga á eftir, dröslaðist náföl og dofin í skólann og enda svo vikuna með þessu líka svakalega kvefkasti.

En partíið: kannski milli fimmtíu og sextíu manns, allt nánir vinir að sjálfsögðu. Einkennilegt hversu fljótur maður er að fylla gestalistann, þótt að aðeins "hinir nánustu" hafi verið á honum. Og ég gerði hina frægu sangríu sem féll ekki verr í kramið hjá Dönunum en Frökkunum í síðasta partíi sem ég hélt (sem var einmitt fyrir fjórum árum - believe it or not). Það flæddi allt í þessari sangríu fyrstu tímana og eins naívt og fólk nú er héldu flestir að þetta væri óáfengt helvíti. En viti menn, tveimur tímum síðar var rommið farið að segja til sín og þar með hinn óumflýjanlegi þorsti eftir meira áfengi. Guði sé lof hafði Bernhard ekki tekið í mál að kaupa minna en hundrað öl, sem svo entust eitthvað fram á nótt. Ég sjálf var bláedrú allt kvöldið, drakk ekki meira en eitt glas af sangríunni og var þess vegna orðin hálf sigin um ellefu leitið. Það varð ekki úr heimferð fyrr en klukkan þrjú, þegar mæjónesan var orðin gul og Juliane svo sannarlega löggst í bleyti!!!

Og já, skólinn. Það er erfitt að segja til um tilfinningar mínar í garð skólans í augnablikinu. Fyrstu tvær vikurnar voru fylltar af hópvinnu með fólki sem allt var svo einkennilega eigingjarnt, nennti ekkert að vinna með öðrum og var heilu og hálfu dagana ekki með vegna þess að þau þurftu að fara í vinnuna. Þannig að það endaði með að ég ásamt Helene blessuninni þurftum að redda þessu í einum hvelli síðasta daginn, eftir að hafa notað tvær vikur í að rífast og þræta um allt og ekkert, helmingurinn af hópnum ekki til staðar nema annað hvort skipti. En á mánudaginn var prógrammið okkar svo tekið fyrir ásamt prógrömmum hinna hópanna og eftir allt streðið var gott að heyra að kennurunum fannst nú mest til okkar prógrams koma. Allt er hey í harðindum og ég held að þessi athugasemd kennaranna hafi hjálpað mér að sjá hið jákvæða í skólanum aftur.

Verkefnið gengur út á að teikna grunnskóla (bygginguna). Ég ræddi svo við kennarann minn á fimmtudaginn og henni fannst (eftir að hafa séð gömul verkefni) að ég ætti að einbeita mér að tæknilegum atriðum í byggingunni, þ.e.a.s. fara alveg niður í smáatriði til að kunna það. Við stefnum á að hafa þetta verkefni sem "indstillingsopgave", þ.e.a.s. næstsíðasta verkefnið mitt í skólanum. Það er dálítið stressandi, en ég held að ég sé að verða tilbúin til að skilja við skólann.

Ég dreymi um að liggja á strönd einhvers staðar við Rauðahafið, eða já, vera á Jamaica eins og móðir mín og systir. Einhvers staðar þar sem bara er gott veður allan daginn og maður þarf ekki að vefja sig inn í teppi ef maður er veikur (ef maður verður yfirleitt veikur á þannig stað)!

Ég get glatt sjálfa mig við það að ég keypti efni í langermaða peysu í gær og var kominn tími til, þar sem nánast allar flíkur mínar enda við olnboga. Ég hef hins vegar legið í svo miklu móki að ég er ekki einu sinni búin að gera sniðið! En þetta er allt á leiðinni.

Á þriðjudag er ég að fara í sónar í fyrsta skipti, þetta er það sem er kallað á dönsku "nakkefoldskanning" sem er til að athuga hvort fóstrið sé með Down Syndrome. Ég er persónulega á móti þessari "risikovurdering", en Bernhard vill endilega fara og ef það getur róað hann eitthvað er ég til í það.

Og ps. þið sem ekki vissuð það: ég er ólétt! Buhu!

sunnudagur, febrúar 01, 2004

Hamingjan

Góður dagur á föstudaginn. Ég verð að vera sammála Önnu G, hverjum dettur í hug að svona góðir dagar komi ekki sem rýtingur í bakið á manni nokkrum dögum síðar? Allt gekk vel: ég fékk góð ummæli fyrir verkefnið, prófessorinn sagði að ég gæti reynt að klára á tveimur önnum og ekki þremur (ég hef samt mínar efasemdir um það). Þar að auki fór ég í bæinn með Helene og það var útsala í Illum, sem er svona sjoppa sem yfirleitt er svo dýr að maður kaupir ekkert þar. En við fengum buxur á 240 kr, og þá var það ferðarinnar virði.
Um kvöldið rákumst við B. svo á saumavél, okkur til mikillar furðu, í Fötex. Og hún var nokkrum hundruðum ódýrari en þær vélar sem ég hafði kíkt á (sama módel)... Þannig að: ég lét slag standa og keypti hana.

Jú, hamingjan er föl fyrir smá pening. Það er alveg ljóst.